Hér er uppskrift að stórkostlega góðri tortillaköku. Ef þér finnst mexíkóskur matur freistandi mælum við með að þú prófir hana þessa – það er líka gaman að bera réttinn fram svona í formi köku.
Það er hún Svava á Ljúfmeti og lekkerheit sem deilir með okkur uppskriftinni að þessari veislu. En Svava bar guacamole, sýrðan rjóma, ostasósu, salsa, nachos og salat fram með kökunni.
Það sem þarf
Uppskrift fyrir 4-6
- 1 pakkning með 8 tortillum (medium stærð)
- 500 g nautahakk
- 1 poki tacokrydd
- 100 g rjómaostur (gott að nota philadelphia rjómaostinn)
- 1 dl rjómi
- 150 g maísbaunir
- 1/2 krukka chunky salsa
- salt og pipar
- um 300 g rifinn ostur
Aðferð
Steikið nautahakkið og kryddið með tacokryddinu.
Hrærið rjómaosti, rjóma, salsa og maísbaunum saman við og smakkið til með salti og pipar.
Smyrjið smelluform (hægt að sleppa því og raða tortillakökunum beint á ofnplötu) og setjið tvær tortillakökur í botninn á forminu.
Setjið 1/3 af fyllingunni yfir og smá rifinn ost.
Setjið tvær tortillur yfir og endurtakið (þannig að það verði 3 lög af fyllingu).
Endið með tortillaköku efst og stráið restinni af ostinum yfir.
Setjið í 200° heitann ofn í 20-25 mínútur.
Takið út og njótið með sósum, sýrðum rjóma, nachos og salati!