Kjúkling má útbúa á svo marga vegu að það er eiginlega alveg með ólíkindum.
Þessi réttur hér er alveg frábær fyrir fjölskylduna, veisluna og partýið – og það er klárt mál að krakkarnir verða hrifnir af þessum kornflekskjúlla.
Það besta við uppskriftina er að kjúklingurinn er bakaður í ofni en ekki djúpsteikur og er því töluvert hollari fyrir vikið.
Það sem þarf
Miðað er við um 12 til 14 bita
2 kjúklingabringur
1 stórt egg – eða 2 minni
3 bollar kornfleks
½ tsk salt
1 msk fersk niðurskorin steinselja
1 msk ólífuolía
4 msk hveiti
svartur pipar úr kvörn
Aðferð
Hitið ofninn að 200 gráðum.
Setjið böknarpappír á ofnplötu.
Þerrið kjúklinginn og skerið hann í langar ræmur.
Kryddið hann síðan með salti og pipar.
Hrærið egg og ólífuolíu saman með gaffli.
Setjið hveitið á disk.
Látið kornfleksið í poka og myljið það smátt í pokanum með höndunum eða kökukefli.
Blandið kornfleksi, salti, pipar og steinselju saman og setjið á disk.
Takið þá kjúklingabitana og veltið upp úr hveiti, dýfið síðan í eggjablönduna og að lokum í kornfleksið og kryddið. Hyljið bitana alveg.
Leggið síðan bitana á ofnplötu.
Bakið í ofninum í 15 mínútur og takið þá út og snúið bitunum við og bakið í aðrar 15 mínútur.
Takið þá út og njótið með góðri sósu eða hverju því meðlæti sem hugurinn girnist.
Sjáið hér í myndbandinu hvernig þetta er gert