Íslenska óperan býður upp á í vetur, eins og undanfarna vetur, ókeypis hádegistónleika þar sem söngvarar flytja perlur óperu- og söngbókmenntanna í Norðurljósasal Hörpu.
Þriðjudaginn 26. september eru allir hjartanlega velkomnir á fallega tónleika í hádeginu klukkan 12.15 í Norðurljósum í Hörpu.
Hanna Dóra og Hlín
Söngkonurnar Hanna Dóra Sturludóttir mezzósópran og Hlín Pétursdóttir Behrens sópran flytja ásamt Snorra Sigfúsi Birgissyni píanóleikara, aríur og dúetta eftir Richard Strauss við librettótexta Hugo von Hoffmannsthal.
Gæðastund í Hörpu
Óperan lofar áheyrendum gæðastund í Hörpu.
Eins og áður sagði er enginn aðgangseyrir á tónleikana og eru allir hjartanlega velkomnir meðan húsrúm leyfir.
Það er um að gera að nota hádegið til að hlýða á fallega tónlist – en tónleikarnir standa í um 30 mínútur!
Richard Strauss og Hugo von Hoffmannsthal kynntust árið 1899 og áttu afar farsælt samstarf eftir að Strauss hafði séð uppfærslu af leikritinu Elektru eftir Hoffmannsthal. Samnefnd ópera þeirra, Elektra var frumflutt árið 1909 og á eftir komu Der Rosenkavalier, Ariadne auf Naxos, Die Frau ohne Schatten, Die ägyptische Helena og Arabella.
Efnisskráin:
Die Rosenüberreichung Dúett Sophie og Octavians úr Der Rosenkavalier
Sein wir wieder gut Aría Komponist úr Ariadne auf Naxos
Die Wiener Herrn Aría Fiakermilli úr Arabella
Ist´s ein Traum Dúett Sopie og Octavians úr Der Rosenkavalier