Ef einhver heldur að fólk hætti að stunda kynlíf þegar það eldist þá er það mikill misskilningur.
Almennt eru einstaklingar kynferðislega virkir langt fram eftir aldri. En þessi langlífa mýta um að eldra fólk geti ekki verið fjörugt í rúminu endurspeglast í ansi mörgu og má þar meðal annars nefna sjónvarpsþætti og bíómyndir.
Það er nefnilega ekki algengt að fólk yfir fimmtugt sé sýnt í ástarleikjum á skjánum. Á meðan þessi sýnileiki er ekki til staðar lifir þessi mýta áfram.
Sjö frægar og flottar tjá sig um kynlífið
Þessar sjö hressu og flottu konur á besta aldri vita svo sannarlega að kynlífi er ekki lokið þótt ákveðnum aldri sé náð. Enda af hverju ætti það svo sem að vera? Kannski má læra eitthvað af orðum þeirra.
Söngkonan Dolly Parton, 72 ára, er mjög trúuð kona en hún segir kynlífið vera svo eðlilegan hluta af lífi okkar.
Okkur voru gefnir þessir líkamshlutar af ástæðu og það var einfaldlega til þess að við notuðum þá segir hún. Mikið til í því hjá henni.
Leikkonan Helen Mirren, 73 ára, er yfirleitt ekki að skafa utan af hlutunum. Hennar skoðun er sú að það þurfi ekki alltaf að vera eitthvað hefðbundið eða fyrirfram ákveðið af samfélaginu hvað það sé sem komi þér til.
Helen segist t.d. sjálf hafa gaman af því að horfa á súludans og svo hafi kynlífsbækur Madonnu verið í uppáhaldi hjá henni.
Leikkonan Sophia Loren, 84 ára, telur kynþokkann vera hugarástand. Hún segir gæði kynlífs og kynþokka fyrst og fremst koma að innan og því skipti engu máli hvernig þú sért í laginu. Það skipti ekki nokkru máli hvort þú sért í stærð 4 eða 14 eða hvort brjóst þín séu stór eða smá.
Þú þarft ekki að passa inn í eitthvað box til að vera kynferðislega virk/ur því fyrst og fremst snýst þetta um hvernig þér sjálfri/sjálfum líður með þig og þá fylgir hitt sjálfkrafa á eftir.
Þetta er kannski eitthvað sem margar konur mættu t.d. taka til athugunar – að leita inn á við í stað þess að einblína á líkamsvöxtinn.
Leikkonan Goldie Hawn, 72 ára, telur að besti lífsförunauturinn og bólfélaginn sé sá sem lætur þér finnast þú vera kynþokkafull og aðlaðandi.
Þetta getur skipt konur miklu máli þegar þær eldast og fara jafnvel að efast um líkama sinn.
Leikkonan Jane Fonda, 80 ára, segir undirbúning skipta máli við gott kynlíf. Hún telur að með aldrinum sé ekki alltaf hægt að leyfa sér að vera hvatvís og hoppa skyndilega í kynlífið og því þurfi að skipuleggja það.
En hún segir það líka geta verið alveg jafn spennandi að gera ráðstafanir.
Leikkonan Betty White, 96 ára, telur konur algjörlega stjórna eigin kynlífslöngun.
Hún segist sjálf enn vera að bíða eftir þeim degi að löngunin hverfi. Betty telur kynlífslöngunina vera eins og það að eldast – þetta sé fyrst og fremst í höfðinu á okkur sjálfum.
Sem sagt ef þér finnst þú vera gömul þá verðuru gömul. Með réttu hugarfari sé því auðvelt að halda lönguninni við.
Leikkonan Meryl Streep, 69 ára, segir kynlíf snúast um það að vera hamingjusamur.
Hún segir það vera þrennt sem geri okkur virkilega hamingjusöm; en það sé ást, kynlíf og matur. Þar höfum við það!