Streita er mikil í okkar nútímasamfélagi og ansi margir lifa við stöðugt stress. Það er engum blöðum um það að fletta að stress hefur slæm áhrif á heilsuna – ekki bara andlega heldur lika líkamlega.
Mikilvægt að ná slökun á hverjum degi
Sérfræðingar segja mikilvægt fyrir okkur að ná að slaka á þótt ekki sé nema í stutta stund í senn, meira að segja örfáar mínútur geti hjálpað. En þeir telja það geta gert líkamanum afar gott að ná 20 mínútum á dag í slökun.
Með því ættum við að ná að endurræsa kerfið sem leiðir til þess að líkaminn verður ekki jafn viðkvæmur fyrir streituhormónum.
En það getur reynst þrautin þyngri að ná að slaka á og þess vegna erum við hér með nokkrar leiðir sem geta hjálpað þér af stað.
Prófaðu þessar 6 leiðir
1. Andaðu djúpt og andaðu út
Þegar við erum stressuð öndum við gjarnan mjög grunnt og höldum raunverulega niðri í okkur andanum. Þetta er ekki gott fyrir líkamann. Þegar við öndum djúpt aukum við súrefnis inntöku líkamans sem hefur í för með sér róandi tilfinningu. Til að finna hvort þú sért ekki örugglega að anda djúpt geturðu lagt aðra höndina á magann og þá áttu að finna magann fara út.
2. Horfðu á ljósmyndir af vissum hlutum
Myndir af snjókorni, kuðungi eða eldingu þykja, samkvæmt vísindunum, sýna ákveðin munstur sem eiga að hjálpa okkur að slaka á. Með því að taka sér hlé frá stressandi verkefni og horfa á slíka mynd má lækka stressstuðulinn.
3. Fáðu þér smá súkkulaði
Rannsóknir sýna að það hjálpi heilmikið að borða dökkt súkkulaði. Með því að borða dökkt súkkulaði á hverjum degi má draga úr streituhormónum. Og best er að hætta öllu öðru þegar súkkulaðið er borðað, slaka á og njóta þess og ekki hugsa um neitt annað á meðan.
4. Fáðu þér göngutúr úti
Með því að fá sér göngutúr eykst noradrenalín í líkamanum en það er taugaboðefni sem hjálpar heilanum að eiga við stress. Auk þess þykir sýnt að það að stunda létta hreyfingu utandyra hafi jákvæð áhrif á skapið og auki orku.
5. Farðu að föndra, mála, prjóna eða lita
Listir og föndur geta hjálpað fólki að slaka. Fáðu þér eina af þessum nýju litabókum fyrir fullorðna eða sestu niður með prjónana – þótt ekki sé í nema 10 mínútur á dag.
6. Hitaðu þér te
Sýnt hefur verið fram á að grænt te og kamillute dragi úr stressi í líkamanum. En það eru efnin sem þetta te inniheldur er valda því. Þeir sem drekka slíkt te daglega, og fleiri en einn bolla á dag, þjást síður af streitu.