Hvernig eru þínar svefnvenjur?
Ertu kannski ein/n af þeim sem finnst það algjör tímaeyðsla að sofa?
Það er svo sem margt annað skemmtilegra en að sofa. En á hinn bóginn er líka alveg rosalega gott að sofa, þ.e. þegar maður gefur sér tíma í það.
Ég er ein af þeim sem á oft erfitt með að koma mér í rúmið á skikkanlegum tíma af því að ég má ekkert vera að þessu. Það er bara stundum svo margt annað miklu mikilvægara en svefninn. Eða það held ég alla vega. En raunin er nú samt sú að ég þarf helst mína átta tíma á nóttu til að komast í gegnum vikuna.
Svefnmynstrið breytist með aldrinum
Það eru eflaust margir sem átta sig ekki á því hversu mikilvægt er að fá nægan svefn. Sumir telja sig einfaldlega ekki þurfa að sofa jafn mikið og aðrir. Og svo finnst líka mörgum það vera algjör tímaeyðsla að sofa. Hver hefur til dæmis ekki heyrt frasann „ég sef þegar ég er orðinn gamall“?
En þetta með að sofa þegar maður verður gamall er auðvitað algjört bull. Hafið þið heyrt um margt gamalt fólk sem sefur langt fram eftir? Flest eldra fólk vaknar eldsnemma á morgnana og getur ekki sofið. Svefnmynstrið breytist hjá fólki með aldrinum og góður svefn verður ekki jafn sjálfsagður þegar fólk eldist. Þess vegna er þessi frasi svo innihaldslaus þótt maður hafi nú sjálfur hent honum fram í gríni.
Hættulegt heilsunni
Getur verið að svefn og svefnþörf séu vanmetnar þarfir?
Það má enginn vera að því að sofa því það er svo mikið að gera hjá öllum. Dagskráin er þétt og oftar en ekki er svefninn látinn mæta afgangi. Það er bara ekki pláss fyrir nægan svefn á dagskránni hjá uppteknu fólki. Svo er líka svo margt annað sem glepur, sjónvarpið, netið, Facebook, Instagram og ótalmargt fleira. En að passa ekki upp á svefninn getur víst verið virkilega varhugavert.
Of lítill svefn getur nefnilega haft áhrif á ónæmiskerfi líkamans og veikt það. Vísindamenn telja að þeir sem sofi ekki nóg séu í meiri hættu á að þróa með sér sykursýki, fá háan blóðþrýsting, hjartasjúkdóma og heilablóðfall. Þá er of lítill svefn einnig talinn geta valdið þunglyndi og lélegra minni, auk þess sem hæfnin til að hugsa og vinna úr upplýsingum versnar.
En ekki er þar með allt upp talið því sannað þykir að kvíði og hræðsluköst séu líklegri hjá þeim sem sofa ekki nóg. Svo er minni svefn líka talinn hafa áhrif á matarvenjur því einstaklingar sem ekki sofa nóg leita víst frekar í óhollustu en þeir sem fá nægan svefn.
Er það töff að sofa ekki mikið?
Í gegnum tíðina hef ég oft dáðst af fólki sem þarf lítið að sofa (eða telur sig þurfa), því þetta fólk hlýtur að hafa svo miklu meiri tíma en við hin sem þurfum okkar svefn. En kannski þegar upp er staðið eru það svefnpurkurnar sem hafa mesta tímann, alla vega þegar litið er til áhættuþátta þess að sofa ekki nóg. Og þótt dagar okkar svefnpurkanna séu ekki jafn langir og hjá þeim sem telja sig þurfa lítinn svefn þá er ekkert ólíklegt að við náum að gera jafnmikið yfir daginn, ef ekki meira – því hugsunin verður skýrari og þeir sem sofa meira vinna víst betur úr upplýsingum.
Það getur svo sem vel verið að það sé töff að sofa lítið en ávinningurinn af því að sofa nóg er augljós. Við svefnpurkurnar eigum nefnilega meiri möguleika á að lifa lengur og það er víst staðreynd.
Jóna Péturs – kokteillinn@gmail.com