Sælkeri Kokteils er mikið matargat og finnst fátt betra en að borða góðan mat á góðum veitingastöðum. Uppáhald Sælkerans eru samt hádegin og fyrir því er góð ástæða. Í hádeginu bjóða nefnilega flestir góðir veitingastaðir upp á sérstakan hádegisseðil. Þá er oft hægt að fá sömu rétti og staðirnir bjóða upp á á kvöldin á mun lægra verði. Stundum eru réttirnir reyndar aðeins minni en það er alls ekkert algilt.
Um daginn fór Sælkerinn á Smurstöðina í Hörpu. Þar er reyndar ekki sérstakur hádegisseðill í gangi en á móti bjóða þeir upp á hádegistilboð á hverjum degi. Þá velur kokkurinn 2 brauðsneiðar af matseðlinum sem kosta saman 2.700 krónur, en verðið á sneiðunum er annars á bilinu frá 1.570 til 2.090 krónur stykkið.
Smurstöðin opnaði 5. september í fyrra í plássinu þar sem Munnharpan var áður, þ.e. á jarðhæð Hörpu. Óhætt er að segja að breytingar á staðnum hafi tekist vel. Hann er meira núna eins og veitingastaður inni í Hörpunni í stað þess að vera eins og hluti af almenna rýminu. Það er einstaklega notalegt og gaman að sitja á Smurstöðinni enda iðar Harpan alltaf af lífi.
Þar sem Harpan dregur augljóslega til sín mikið af ferðamönnum voru þeir í meirihluta á Smurstöðinni þennan daginn. Og voru ýmis tungumál töluð á borðunum í kring. En það var líka einstaklega skemmtilegt og leið manni hálfvegis eins og maður væri staddur á veitingastað einhvers staðar í útlöndum. Klárlega einn af kostum Smurstöðvarinnar.
Sælkeranum hefur alltaf þótt smurbrauð afar gott og varð alls ekki fyrir vonbrigðum með Smurstöðina. Þeir hafa fært brauðið upp á næsta stig þar sem mikil natni er lögð í hverja sneið. Þær gleðja svo sannarlega augað, en það er eitt af því sem Sælkeranum finnst afar mikilvægt. Reyndar eru sneiðarnar það fallegar að maður tímir varla að borða þær. En auðvitað lét maður að lokum vaða og í þetta skiptið var smakkað á nætursöltuðum þorski á sætu rúgbrauði með dilli og stökkum kartöfluflögum, og brauði með kjúklingi “hønsesalat” með sveppum og piparbeikoni. Sælkerinn féll alveg fyrir þorskinum, sem var fullkomlega eldaður og ekki of saltur. Kartöfluflögurnar voru síðan punkturinn yfir i-ið. Borðfélagi Sælkerans var hins vegar hrifnari af brauðinu með kjúklingnum sem reyndar var líka afskaplega bragðgott og piparbeikonið poppaði það skemmtilega upp. Þjónustan á staðnum var allt í lagi, en ekkert til að hrópa húrra yfir. Sælkerinn þurfti reyndar að bíða töluvert eftir að fá þjónustu og endaði á því að kalla á þjón eingöngu til að fá matseðlana.
Sælkerinn getur vel mælt með Smurstöðinni, vegna matarins og umhverfis, og er t.d. tilvalið að fá sér drykk og bita áður en farið er á tónleika eða aðra viðburði í Hörpu. Vínseðill staðarins er lítill en býður engu að síður upp á það helsta eins og Chardonnay, Cabernet Sauvignon og kampavín frá Moet & Chandon, auk fleiri drykkja.