Við erum ótrúlega ánægð með kokteil mánaðarins að þessu sinni enda er þetta afmæliskokteillinn okkar.
Já, við verðum eins árs þann 5. mars. Og við erum voða spennt!
Rjómakenndur og yndislegur
Þetta er rjómakenndur kokteill með sykurpúðum og alveg frábær fullorðinsdrykkur. Algjört sælgæti. En það má líka alveg bjóða krökkunum upp á þennan drykk og skipta áfenginu út fyrir súkkulaðimjólk.
Það er alls ekki flókið að gera þennan kokteil og í raun bara nokkuð einfalt.
Hér er það sem þarf
3 cl Baileys
3 cl Creme de Cacao
3 cl sykurpúða-vodka (gæti verið erfitt að fá hann á Íslandi en þá má láta sykurpúða liggja í bleyti í venjulegu vodka í nokkra tíma eða yfir nótt)
3 cl rjómi
Klaki
Fyrir glasið
1 tsk súkkulaðisíróp
¼ bolli muldar Grahams kexkökur
1 steiktur/grillaður sykurpúði
Aðferð
Takið kokteilglas og berið súkkulaðisíróp á barmana. Leggið síðan ofan á mulið kexið og þekjið barmana með kexinu.
Setjið Creme de Cacao, vodka, Baileys og rjóma með klaka í hristara. Hristið saman, síið klakann frá og hellið í glasið.
Skreytið með sykurpúða.
Og njótið!
Uppskrift fengin af doughmesstic.com