Hefur fæðingarmánuður þinn eitthvað með það að segja hvernig heilsufar þitt er?
Svo vilja sérfræðingar meina. Samkvæmt rannsóknum og greiningu á gögnum 1.7 milljón sjúklinga í New York í Bandaríkjunum þykir ljóst að fæðingarmánuðurinn hafi eitthvað með það að segja.
Niðurstöður benda til að sú árstíð sem við fæðumst inn í geti haft áhrif á hvort eða hvaða sjúkdóma við fáum á lífsleiðinni.
Margt annað skiptir máli
Þeir sem standa að rannsókninni vilja þó benda á að margt annað skipti máli varðandi heilsufar og þetta sé aðeins lítill hluti af því. Áhættan á ákveðnum sjúkdómi tengdum fæðingarmánuði er t.d. lítil í samanburði við mataræði og hreyfingu.
Niðurstöður rannsóknarinnar leiddu í ljós að 55 sjúkdóma mætti rekja til fæðingarmánuðar og voru ólíkir hjartasjúkdómar þar á meðal. Þeir sem fæddir eru í mars gætu verið í meiri hættu á að fæðast með hjartabilun og þeir sem fæddir eru í júlí og október eru líklegri en aðrir til að fá astma. Og börn sem fædd eru í nóvember eru mun líklegri en önnur til að vera með ADHD.
Minnstu líkur á sjúkdómum eru hjá þeim sem fæddir eru í maí og þær mestu hjá þeim sem fæddir eru í október og nóvember.
Ekki samt hafa of miklar áhyggjur af þessu
Forsvarsmenn rannsóknarinnar vara þó við því að draga of miklar ályktanir af þessu og segja að fólk eigi ekki að hafa of miklar áhyggjur því þetta þurfi að rannsaka enn betur, sem og víðar.
Og eins og áður sagði þá vegur þetta lítið miðað við lifnaðarhætti fólks.