Við þreytumst seint á því að tala um litlu hlutina sem skipta máli í lífinu. Þetta er nefnilega oftast ekkert flókið og því er algjör óþarfi að vera að flækja lífið og leita langt yfir skammt.
Litlar breytingar geta gert mikið
Stundum þurfum við aðeins að gera litlar breytingar hjá okkur sjálfum og hugsa hlutina upp á nýtt til að verða hamingjusamari.
Hvernig við bregðumst við því sem lífið færir okkur, hvað við gerum og hvernig við lítum á hlutina skiptir miklu máli varðandi lífsánægju okkar.
Hér eru 14 lítil atriði sem geta gert okkur hamingjusamari
1. Ekki vera í fýlu
Ekki fara að sofa í vondu skapi eða í fýlu út í makann. Þetta gerir lítið annað en að skemma góðan svefn – og þegar við erum illa sofin líður okkur ekki vel og við erum illa upplögð.
2. Farðu að sofa
Sýndu skynsemi og farðu að sofa þegar þú ert þreytt/ur. Ekki reyna að hanga uppi þegar þú þarft á hvíldinni að halda. Þú gerir engum gott með því.
3. Léttu á þér
Alltaf þegar þér líður illa eða þegar eitthvað angrar þig skaltu ræða það við einhvern sem þú treystir. Alls ekki byrgja það inni því það hjálpar engan veginn.
Manni líður svo miklu betur þegar maður léttir á sér – og fær jafnvel aðra sýn á málið.
4. Gráttu
Leyfðu þér að gráta! Ekki bæla tilfinningarnar inni því það gerir illt verra. Svo er bara svo gott fyrir líkama og sál að gráta annað slagið og alls ekkert til að skammast sín fyrir.
5. Jákvæðni og hrós
Taktu þér tíma á hverjum degi til að hugsa eitthvað jákvætt um sjálfa/n þig. Það þarf ekki að vera stórt eða merkilegt – bara það að þú eigir góðan hárdag er nóg.
Svo eru dagarnir auðvitað misjafnir og stundum getum við hugsað stórt og aðra daga smærra. En hafðu það að reglu að segja eitthvað jákvætt um sjálfa/n þig daglega. Það er nefnilega öllum hollt að hrósa sjálfum sér.
6. Heimilið og vinnan
Ekki taka vinnuna með þér heim. Heimilið er þinn griðastaður og þar áttu að geta slakað á í friði og ró.
7. Eldaðu heima
Taktu þér tíma í það að elda að minnsta kosti eina góða máltíð í hverri viku. Matur sem búið er að nostra við bragðast alltaf betur og fyrir marga fylgir viss ánægja því að sýsla í eldhúsinu.
8. Breyttu til
Ekki festast í viðjum vanans. Brjóttu upp hversdagsleikann með því að gera eitthvað öðruvísi á hverjum degi. Ekki láta alla daga vera eins og festast í sömu rútínunni.
Þetta þarf ekki að vera flókið, bara það að prófa nýjan kaffidrykk, versla í matinn á nýjum stað eða taka létta göngu í hádeginu er nóg.
9. Hlakkaðu til
Leyfðu þér að hlakka til einhvers. Hvort sem það er sumarfríið á næsta leyti, matarboðið hjá góðum vinum eða heita freyðibaðið um helgina. Það er alltaf gott að hafa eitthvað til að hlakka til.
10. Notalegir morgnar
Gefðu þér tíma á morgnana til að fá þér kaffibolla og/eða morgunmat. Ekki láta það fyrsta sem þú gerir vera það að kíkja á tölvupóstinn eða á Facebook. Að eiga notalega stund áður en farið er út í daginn getur skipt sköpum.
11. Njóttu matarins
Ekki borða og vinna á sama tíma. Gefðu þér tíma til að njóta matarins.
12. Kaffibolli og spjall
Farðu á kaffihús með vinkonu/vini þínum. Gott spjall yfir kaffibolla á notalegum stað getur gert heilan helling fyrir andlegu hliðina.
13. Göngutúr
Farðu í hressandi göngutúr úti í náttúrunni og veittu umhverfinu athygli. Sjáðu gróðurinn, fuglana, himininn og allt það yndislega sem útiveran hefur upp á að bjóða.
14. Leiktu þér
Ekki gleyma að leika þér. Það er ekki að ástæðulausu að oft er sagt að lífið sé leikur – og það er skemmtilegra að vera með í þeim leik.
Bara það að leika við börnin eða barnabörnin, hoppa í rúminu, fíflast, spila, dansa og sprella eða eitthvað allt annað getur létt lundina svo um munar. Það er nefnilega svo mikilvægt að gleyma ekki barninu í sér!
Jóna Péturs – kokteillinn@gmail.com