Mörgum finnst alveg ómissandi að eiga alltaf heimagerða rabarbarasultu inni í skáp og er á ófáum íslenskum heimilum boðið upp á slíkt með pönnukökum og lambalærinu á sunnudögum.
Hér er góð og aðeins öðruvísi uppskrift að rabarbarasultu úr bókinni Sultur allt árið eftir matgæðinginn Sigurveigu Káradóttur.
Rabarbarasíróp með kanil og stjörnuanís
Best er að nota vel rauðan rabarbara í sírópið.
Það sem þarf
1 kg brytjaður rabarbari
200 g hrásykur (+ 50% á móti vökvanum, sjá neðar)
1 kanilstöng
2-3 stjörnuanís
Aðferð
Rabarbarinn, kanilstöngin og 200 g hrásykur er sett í pott og suðan rétt látin koma upp, en passað að rabarbarinn maukist ekki.
Lokið er látið á og þessu leyft að liggja í pottinum í dágóðan tíma, þess vegna yfir nótt.
Þá er rabarbarinn sigtaður frá (hann má vel nota, til dæmis hræra hann út í jógúrt).
Vökvinn er mældur og síaður og meiri sykri er bætt út í. Í 500 ml af vökva er gott að setja 250 g af hrásykri (50%).
Vökvi og sykur sett saman í pott og soðið í 10-15 mínútur, eða þar til vökvinn hefur minnkað um að minnsta kosti þriðjung.
Þá er sírópið sett í krukku eða flösku og kanilstöngin og stjörnuanísinn má endilega fylgja með, það er bara fallegra og bragðið verður sterkara eftir því sem tíminn líður.
Þetta er í raun ekki svo ósvipað því að búa til saft – bara þykkara og ögn sætara.
Það má líka nota hvítan sykur, eða minnka sykurmagnið. Því minna sem notað er af sykri, því þynnra verður sírópið.
Sírópið er gott út á vöfflur og pönnukökur eða með ís. Eins má blanda sírópið með vatni eða sódavatni ef maður vill góðan og svalandi rabarbaradrykk.