Manstu eftir permanentinu hér í „denn“? Þegar ungar snótir streymdu í hópum á hárgreiðslustofur til að fá krullur í hárið eins og Madonna, Sarah Jessica Parker og fleiri stjörnur?
Við munum sko vel eftir þessu og hvað permanentið gat verið… já, ekkert rosalega flott. Hárið var alltaf frekar úfið. Þess vegna héldum við að þetta myndum við aldrei segja; en permenentið er komið aftur! Já, í alvörunni!
Byrjaði allt á tískusýningarpöllunum
Eftir tískusýningarnar á sýningarpöllunum í febrúar hafa krullur verið að skjóta upp kollinum víða. En þessar nýju krullur eru þó ekki eins og þær voru hér áður. Þessar eru nútímalegri, náttúrulegri og eiga að líta þannig út að hárið hafi verið svona lengi og það á ekki að sjást að krullurnar séu brakandi nýjar. Þetta er nokkurs konar beint framhald af strandarliðaða hárinu sem hefur verið svo vinsælt undanfarin misseri.
Fyrir þær sem vilja vera lausar við krulllujárnin og saltspreyið þá er þetta auðvitað tilvalin lausn. Það væri nú líka svolítið notalegt að vakna og þurfa ekki að eyða mikum tíma í hárið. Svo er þetta einstaklega þægilegt fyrir sumarið.
Sarah Jessica Parker á áttunda áratugnum.
Ákveðin aðferð notuð til að gera krullurnar
Sú aðferð sem helst er notuð í dag var upphaflega ekki ætluð fyrir permanent heldur fyrir strípur. En með þessari aðferð má gera hvorutveggja í einu, þ.e. að fá sér strípur og permanent. Og það besta er að þótt verið sé að setja bæði strípur og permanent í hárið þá fer það víst ekkert verr með hárið.
Sérfræðingar segja líka að það fari ekkert verr með hárið að setja í það permanent frekar en að nota alls kyns efni, tæki og tól í það daglega.
Það verður gaman að sjá hvort ungar og eldri snótir hér á landi verði komnar með sætar krullur í hárið í sumar.
En svona eru krullurnar meðal annars í dag.