Alveg frá því ég var krakki hefur lax og silungur verið einn besti fiskur sem ég fæ og það hefur ekkert breyst í gegnum tíðina.
Í dag er ég afskaplega þakklát að hafa verið dugleg að borða silung og lax enda er þetta ofurfæða fyrir okkur – ekki síst þegar við förum að eldast.
Fyrir heilsuna, húð og hár
Bleiki fiskurinn er stútfullur af omega-3 fitusýrum sem eru afskaplega góðar fyrir okkur og heilsuna. Auk þess eiga þær stóran þátt í því að mýkja húðina og gefa henni raka, sem hjálpar síðan til við að koma í veg fyrir ótímabærar hrukkur. Þá er lax líka góður fyrir hárið.
Rosalega góður
En þegar maður borðar oft sömu fæðutegundirnar vill maður breyta til og ekki alltaf útbúa þær eins og því er ég stöðugt á höttunum eftir nýjum hugmyndum. Hér er ein ný uppskrift sem ég prófaði um daginn og vakti mikla hrifningu heimilismeðlima. Fiskurinn var alveg rosalega góður og þetta er uppskrift sem er komin til að vera á mínu heimili.
Ofnbakaður hunangs- og sinnepslax í álpappír
Það sem þarf
Laxaflak (milli 500 og 750 gr)
½ bolli gott hunang
4 hvítlauksrif, marin eða niðurrifin
½ bolli gróft/heilkorna Dijon sinnep
safi úr ½ sítrónu
1 msk ólífuolía
¼ til ½ tsk rauðar piparflögur (eða crush red pepper)
¼ tsk Cayenne pipar
½ tsk paprika
sjávarsalt og mulinn svartur pipar
kóríander til bragðbæta og skreyta
sítróna til að bragðbæta og skreyta
Aðferð
Hitið ofninn að 200 gráðum.
Leggið bökunarpappír í gott magn af álpappír svo hægt sé að vefja utan um fiskinn og loka þannig að úr verði pakki.
Blandið hunangi, sinnepi, hvítlauki, sítrónusafa, olíu, paprikukryddi, Cayenne pipar og örlitlu salti saman í skál. Hrærið þeta saman.
Setjið laxinn í álpappírinn og dreifið síðan hunangs- og sinnepsblöndunni yfir fiskinn og smyrjið vel yfir hann allan. Kryddið með salti og pipar og dreifið að lokum rauða piparnum yfir fiskinn.
Vefjið eða lokið pakkanum með álpappírnum þannig að það hylji alveg fiskinn og hann sé það vel lokaður að sósan/hunangsblandan leki ekki. Ég lokaði þessu þannig að það loftaði um fiskinn að ofan, svo álpappírinn lá ekki ofan á honum.
Leggið síðan á grind í miðjum ofninum og bakið í 12 til 16 mínútur, en tíminn fer eftir þykktinni á flakinu og hvernig þið viljið hafa hann steiktan.
Að því loknu opnið ofninn og opnið pakkann varlega – setjið síðan grillið á í svona 2 til 3 mínútur til að gera yfirborðið gyllt og stökkt.
Takið fiskinn út og dreifið kóríander yfir (má sleppa) og berið fram með sítrónusneiðum ef vill.
Njótið!
jona@kokteill.is