Hver man ekki eftir kókoskúlunum í bakaríinu!
Ómótstæðilega góðar – og þær heimagerðu eru svo sannarlega ekki síðri. En það er hins vegar oftast smá fyrirhöfn að útbúa slíkar kúlur og þess vegna er þessi uppskrift hér algjör snilld.
Skellt í ofnskúffu
Í stað þess að móta kúlur er deiginu einfaldlega skellt í ofnskúffu og síðan skorið í hæfilega stóra bita. Þetta tekur ekki nokkra stund.
Það er hún Svava á Ljúfmeti og lekkerheit sem deilir hér með okkur þessari uppskrift.
Það sem þarf
- 400 g smjör við stofuhita
- 2 dl flórsykur
- 1 dl kakó
- 1 dl Nesquik (eða annað drykkjarkakó)
- 2 msk vanillusykur
- 1 dl kaffi
- 100 g rjómasúkkulaði
- um 18 dl haframjöl
Yfir kókoskúlurnar
- 200 g súkkulaði (t.d. suðusúkkulaði)
- kókosmjöl
Aðferð
Byrjið á að þeyta smjör og flórsykur saman þar til blandan verður létt.
Bætið kakói, Nesquik, vanillusykri, kaffi og bræddu rjómasúkkulaði í skálina og hrærið öllu vel saman.
Hrærið haframjöli smátt og smátt saman við þar til réttri áferð er náð. Blandan á að vera blaut í sér en þéttur massi.
Þrýstið blöndunni í ofnskúffu sem hefur verið klædd með bökunarpappír og látið standa í ísskáp í smá stund.
Bræðið súkkulaðið til að setja yfir kókoskúlurnar og dreifið því yfir kókoskúludeigið. Stráið kókosmjöli yfir og látið síðan standa í ísskáp í um 30 mínútur.
Skerið kókoskúlurnar í bita.
Geymið í loftþéttum umbúðum í ísskáp eða frysti.