Ég er alveg einstaklega hrifin af kjúklingi og kjúklingaréttum – endar klikkar kjúlli yfirleitt ekki.
Enn betra finnst mér ef réttirnir eru ekki of flóknir í framkvæmd en samt afskaplega bragðgóðir. Það er toppurinn!
Tikkar í öll boxin
Þessi réttur hér tikkar í öll boxin, hann er góður, einfaldur og kjötið einstaklega safaríkt. Uppskriftin miðast við kjúklingalæri en ég henti nokkrum leggjum með. Þá stækkaði ég uppskriftina þar sem ég var að elda fyrir 6 manns og voru allir sammála um að þetta væri einstaklega góður kjúklingur.
Þetta er því klárlega réttur sem er kominn til að vera og verður eldaður oft á mínu heimili í framtíðinni. Gott og einfalt! Og svo má alltaf breyta meðlætinu.
Ef þið hafið ekki tíma til að marinera kjötið þá getið þið samt skellt því inn í ofn. Kjúklingurinn verður bara enn betri ef þið leyfið þessu að marinerast.
Það sem þarf
8 kjúklingalæri
½ bolli ólíufolía
safi úr einni sítrónu
sjávarsalt
nýmulinn pipar
1 til 2 msk hunang
1 msk gróft sinnep (Dijon)
Aðferð
Setjið kjúklingalærin í stóra skál.
Blandið ólífuolíu og sítrónusafa saman í lítilli skál og hellið síðan yfir kjúklinginn. Veltið lærunum upp úr blöndunni og kryddið síðan með salti og pipar. Mjög gott að nota blandaðan pipar.
Látið kjúklinginn liggja í þessari marineringu í að minnsta kosti klukkutíma og jafnvel upp í heilan dag.
Hitið ofn að 190 gráðum.
Takið lærin og leggið þau á hvolf, þ.e. skinnið niður, í djúpa ofnskúffu eða gott eldfast mót.
Setjið inn í ofn og bakið í 20 til 25 mínútur.
Takið þá aðeins út úr ofninum og snúið lærunum við. Setjið aftur inn í ofn í 10 mínútur.
Á meðan kjúklingurinn er inni í ofninum blandið þá hunangi og sinnepi saman í skál og kryddið með salti og pipar.
Takið kjúklinginn út og stillið ofninn á grill.
Berið hunangsblönduna á lærin með pensli.
Setjið síðan aftur inn í ofn í 5 mínútur.
Takið út og njótið!
Uppskriftin er úr bókinni Mad Hungry.
jona@kokteill.is