Þetta er eitthvað sem er áhugavert að heyra því þessi freyðandi dásemd getur haft svo góð áhrif sé hennar neytt í hófi.
Freyðandi búbblurnar geta bara stundum gert svo mikið fyrir andlegu hliðina. Og nú segja fræðimenn að þessi gyllti mjöður sé líka góður fyrir heilann og geti haft jákvæð áhrif á hann.
Nokkur kampavínsglös á viku
Vísindamenn við Reading háskólann í Berkshire í Bretlandi telja að nokkur glös af kampavíni á viku geti komið í veg fyrir heilasjúkdóma og þar af leiðandi hjálpað til að koma í veg fyrir Alzheimer og elliglöp. Auk þess benda niðurstöður þeirra til að þessi freyðandi gullni mjöður geti aukið minnið.
Það eru víst vínþrúgurnar pinot noir og pinot meunier sem notaðar eru til þess að búa til kampavín sem hafa þessi áhrif á heilann. Sérfræðingar benda þó á að þetta þurfi að rannsaka enn frekar á eldra fólki.
Jeremy Spencer, einn vísindamannanna sem stendur á bak við rannsóknina segir þetta vera afar spennandi niðurstöður því hér sé í fyrsta skipti hægt að sýna fram á að hófleg kampavínsdrykkja geti haft jákvæð áhrif á vitsmunalega getu eins og minni.
Færri hitaeiningar
Þangað til að þetta hefur verið fullrannsakað má líka hugga sig við það að kampavín inniheldur færri hitaeiningar en annað vín og kokteilar. Kampavín hefur því greinilega fleiri góða kosti í för með sér.