Ég bara má til með að deila með ykkur einu af betri fegrunarráðum sem ég veit um. Málið er að ég er alveg einstaklega hrifin af Blue Lagoon húðvörunum og hef notað þær í mörg ár með góðum árangri. Ein ástæða þess hversu ánægð ég er með þessar vönduðu vörur er sú að þær eru allar Parabena fríar og ofnæmisprófaðar. Þess vegna eru þessar íslensku gæðavörur svo góðar fyrir allar konur sem eru í hormónarugli, eins og t.d. konur á breytingaskeiði. Við megum nefnilega alls ekki við því að eitthvað utanaðkomandi hringli með hormónana okkar.
Efni sem eru einkennandi fyrir Bláa Lónið vinna gegn öldrun húðarinnar
Blue Lagoon vörurnar hafa reynst mér afar vel, hvort sem það er á andlit eða á skrokkinn. Þess vegna fór ég í að að skoða hvað það nákvæmlega væri sem gerði þær frábrugðnar öðrum vörum sem ég hef notað í gegnum tíðina. Það sem gerir þær svona góðar fyrir húðina er einstök samsetning Blue Lagoon hráefna og annarra sérvalinna náttúrulegra efna. Bláa lónið er auðvitað löngu orðið þekkt fyrir lækningamátt sinn, en virk efni jarðsjávarins eru einstök í heiminum. Þessi efni eru sölt, steinefni, þörungar og kísill.
Söltin og steinefnin hjálpa húðinni að viðhalda jafnvægi sínu og frísklegu útliti og gefa þreyttri húð heilbrigðan ljóma. Þörungarnir eru rakagefandi, mýkjandi, nærandi og styrkja náttúrulegt varnarkerfi húðarinnar. Og kísillinn styrkir, hreinsar, mýkir, hefur áhrif á fitujafnvægið í húðinni og hjálpar til við endurnýjun ysta lags húðarinnar. Allt er þetta eins náttúrulegt og það getur orðið og sýna margra ára rannsóknir að efni sem eru einkennandi fyrir Bláa Lónið vinni gegn öldrun húðarinnar og styrki ysta varnarlag hennar. Og það er einmitt það sem við þurfum á að halda.
Anti-aging línan hentar konum yfir fertugt einstaklega vel
Þær Blue Lagoon vörur sem ég hef helst verið að nota á andlitið undanfarin ár eru úr Anti-aging línunni. En sú lína hentar konum yfir fertugt einstaklega vel. Þar er allt að finna sem við þurfum fyrir andlitið, dagkrem, næturkrem, augnkrem og dag-serum. Ég hef t.d. notað dag- og næturkremið í mörg ár og má eiginlega segja að þetta sé orðið staðalbúnaður hjá mér. Dagkremið, Anti-aging day cream, dregur úr myndun og sýnileika á fínum línum og hrukkum, auk þess að veita fallegt yfirbragð. Í kreminu eru þörungar sem örva kollagen framleiðslu húðarinnar, en kollageni er best lýst sem fyllingarefni húðarinnar. Með aldrinum hægist á kollagen framleiðslunni og því hjálpar kremið húðinni að fá fyllingu og draga úr áhrifum öldrunar.
Best er að setja kremið á hreina húðina og leyfa því aðeins að fara inn í hana áður en farði eða annað slíkt er borið á andlitið. Kremið er mjög drjúgt og endist vel, og svo eru pakkningarnar bæði fallegar og þægilegar með pumpu. Þar sem ég hef langa reynslu af þessum vörum, og kaupi þær aftur og aftur, þá er það mér svo mikið hjartans mál að allar konur viti af þessum íslensku snilldarvörum. Svo ef þú hefur ekki nú þegar kynnst Bláa Lóns vörunum og Anti-aging línunni þá hvet ég þig eindregið til þess að prófa. Þú verður ekki svikin.
Kremin mín, sem eru mikið notuð eins og sjá má.
Jóna Ósk Pétursdóttir