Það þarf ekki alltaf að vera flókið og dýrt að hugsa vel um húðina. Stundum getur einfaldlega verið nóg að fara í skápana í eldhúsinu til að finna það sem þarf til að öðlast góða húð. Það gera meira að segja stjörnurnar í Hollywood.
Leikkonan Scarlett Johansson hefur til dæmis dásamað notkun eplaediks og segir það vera leyndarmálið á bak við hreina og ljómandi húð sína.
Undrameðal við bólum
Þeir sem prófað hafa þessa aðferð sverja og sárt við leggja að þetta sé eitt það besta sem þeir hafa gert fyrir húðina. Segja þeir eplaedikið mýkja húðina, jafna hana, bæta litaraftið og fyrir þá sem fá gjarnan bólur þá er þetta víst algjört undrameðal. En edikið er einstaklega gott við bólum þar sem það jafnar pH-gildi húðarinnar, drepur bakteríur, hreinsar húðina, fjarlægir óþarfa fitu og leysir upp dauðar húðfrumur. En það allra besta er auðvitað að þetta er náttúruleg aðferð.
Til að nota eplaedik á húðina útbýrð þú þitt eigið andlitsvatn – sem er afar einfalt.
Andlitsvatn
1. Náðu þér í lífrænt eplaedik.
2. Notaðu hreint glerílát til að útbúa blönduna.
3. Helltu ediki í ílátið. Hversu mikið eplaedik þú notar fer eftir því hvað þú vilt búa til mikið í einu. Ágætt er að byrja á einni matskeið.
4. Bættu síðan vatni við edikið. Magnið af vatni fer eftir því hvort húð þín er viðkvæm. Gott getur verið að miða við 2 til 3 hluta vatns á móti einum hluta ediks. Ef húðin er mjög viðkvæm má auka vatnsmagnið. Þú gætir þurft að prófa þig áfram til að byrja með þar til þú finnur blönduna sem hentar þinni húð.
5. Síðan notarðu blönduna eins og hvert annað andlitsvatn. Þú hellir örlitlu í bómullarskífu og hreinsar andlitið.
Þetta er gott að gera kvölds og morgna – eða hvenær dagsins sem er þegar þú vilt hreinsa húðina.