Mottumars, átak Krabbameinsfélagsins í baráttunni gegn krabbameini hjá körlum, er hafið í áttunda sinn. Í ár er sérstök áhersla lögð á umræðu og fræðslu um leit að ristilkrabbameini og er slagorð átaksins „Hugsaðu um eigin rass“. Til kynningar á átakinu voru nokkrir af þekktustu leikurum landsins fengnir til að hrista rassinn í auglýsingu og má sjá afrakstur þess í bráðskemmtilegu myndbandi.
„Ristilkrabbamein er eitt algengasta krabbamein hjá körlum hér á landi en á hverju ári greinast rúmlega 70 karlar með þetta krabbamein. Nýgengi hefur verið að aukast, einkum hjá körlum en ristilkrabbamein er eitt af fáum krabbameinum sem unnt er að greina á forstigi og byrjunarstigi. Með skipulagðri leit má því fækka sjúkdómstilfellum verulega og bjarga mannslífum. Mikilvægt er því að þekkja einkennin og þeir sem eru 50 ára og eldri ættu að ræða við sinn lækni um leit að ristilkrabbameini,“ segir í tilkynningu frá Krabbameinsfélaginu.
Jafnframt hvetur Krabbameinsfélagið alla til að taka þátt, safna mottu og áheitum. Það sama gerum við hér á Kokteil!