Einn fylgifiskur þess að eldast eru auknar líkur á hjartaáfalli.
Hjartað, þessi litli vöðvi, sem hvorki sefur né hvílist dælir án afláts og heldur blóði líkamans í stöðugri hringrás um æðarnar.
En hjartað getur líka orðið þreytt og lasið og því þarf að hlusta vel á það. Allar tölur sýna að hjarta- og æðasjúkdómar eru helsta dánarorsök beggja kynja.
Viðvörunarmerkin geta verið væg
Mikilvægt er að þekkja einkenni hjartaáfalls en viðvörunarmerkin geta þó oft verið það væg að fólk ákveður að eitthvað annað heilsufarslegt hrjái það og bíður því jafnvel of lengi með að leita sér hjálpar. Það ætti hins vegar ekki að gera.
Hér eru helstu einkenni hjartaáfalls
Þyngsli eða herpingur fyrir brjósti.
Mæði
Þreyta
Brjóstsviðatilfinning
Sviti/kaldur sviti
Þreyta
Svimi
Kviðverkir
Ógleði
Yfirliðstilfinning
Verkir eða óþægindi í baki, hálsi eða kjálka
Óreglulegur hjartsláttur
Hjartastopp
Flensueinkenni, þreyta, sviðatilfinning og ógleði
Fáir þú óþægindi yfir brjóstkassann, og sem liggja undir hann miðjan, og vara lengur en fimm til tíu mínútur getur verið að um kransæðastíflu sé að ræða. Þessi óþægindi geta bæði komið og farið eða verið viðvarandi.
Fólk lýsir þessu sem sviðatilfinningu, herpingi og bítandi verk sem auðvelt er að rugla saman við nábít og brjóstsviða. Þá leiða þessi óþægindi út í handleggi, gjarnan þann vinstri, sem og herðar, bak, hnakka, kjálka eða maga. Þá getur ógleði, svimi, höfuðverkur, kaldur sviti, ör hjartsláttur og andnauð fylgt.
Mikil og óeðlileg þreyta getur verið undanfari hjartaáfalls sem stafar af því að æðarnar hafa þrengst.
Þá geta skyndileg flensueinkenni einnig bent til þess að hjartaáfall sé yfirvofandi.
Mikilvægt að bregðast skjótt við
Mikilvægt er að fá rétta meðferð strax og ætti því ekki að bíða með að leita sér hjálpar ef grunur leikur á að um hjartaáfall sé að ræða. Ef brjóstverkur varir lengur en 10 mínútur skal leita læknis. Með því að bregðast skjótt við aukast líkurnar á því að hægt sé að hjálpa viðkomandi.
Ef einstaklingur er einsamall þegar þetta gerist getur það hreinlega bjargað honum að þekkja einkennin. Gagnlegt getur verið að taka inn magnyltöflu (eða aspirín) og tyggja hana áður en kyngt er, en það hemur blóðflögur sem gegna lykilhlutverki í segamyndun.
Lykilatriði er að vera kominn undir læknishendur innan eins og hálfs tíma og skynsamlegra er að fara með sjúkrabíl heldur en eigin bíl þar sem hægt er að hefja upphafsmeðferð strax í bílnum.