Rannsóknir sýna að örverur í meltingarvegi mannsins hafa margvísleg áhrif á líkamsstarfssemina.
Þarmaflóran hefur áhrif á líkamsþyngd, efnaskipti og bólguvirkni, hún ver okkur gegn óæskilegum örverum og hefur áhrif á geðheilsu.
Þarmaflóran hjálpar til við að brjóta niður og melta fæðu ásamt því að framleiða ákveðin vítamín og fitusýrur sem eru okkur nauðsynleg. Örverurnar framleiða þar að auki mikilvæg boðefni fyrir líkamann eins og serótónín og dópamín. Heilbrigð þarmaflóra er forsenda heilbrigðrar starfssemi meltingarfæranna ásamt því að hafa áhrif á á taugakerfi, ónæmiskerfi og hormónakerfi.
Ofþyngd, offita og þarmaflóran
Rannsóknir á mönnum og dýrum hafa leitt í ljós að ójafnvægi í þarmaflóru getur stuðlað að ofþyngd og offitu. Fjölgun á ákveðnum örverum (Firmicutes) hefur þau áhrif að mýs þyngjast hraðar en mýs sem hafa hærra hlutfall af öðrum örverum (Bacteroidetes). Firmicutes hafa þann eiginleika að ná meiri orku úr fæðunni en aðrar örverur m.a. með því að frásoga hærra hlutfall fitu en Bacteroidetes.
Þegar músum með steríla görn (án þarmaflóru) er gefin þarmaflóra úr of feitum músum með svokölluðum hægðaflutningi verða mýsnar of feitar án þess að fæði þeirra hafi verið breytt á nokkurn hátt. Þessar niðurstöður gefa til kynna að fjöldi hitaeininga í fæði skipti minna máli en áður var talið. Rannsóknir á of þungum einstaklingum gefa sömu niðurstöður og tilraunir á músum hvað varðar samsetningu á þarmaflóru og líkamsþyngd.
Hvað raskar þarmaflórunni?
Það er mikilvægt að hafa mikla breidd af örverum í meltingarvegi til að viðhalda góðri heilsu. Minni breidd getur aukið líkur á alvarlegum og langvinnum sjúkdómum eins og sykursýki II og krabbameini.
En hvað er það sem getur helst raskað þessari mikilvægu þarmaflóru og þannig leitt til ofþyngdar og jafnvel alvarlegra sjúkdóma?
Rannsóknir í gegnum tíðina hafa sýnt að óhófleg neysla á sætindum og mettaðri fitu hefur slæm áhrif á heilsu almennt. Slíkar neysluvenjur leiða einnig til ójafnvægis í örverubúskap meltingarfæranna og valda óæskilegri fjölgun á óhagstæðum örverum. Það tekur aðeins um einn sólahring að raska heilbrigðri þarmaflóru með slæmu/óhollu fæði.
Sýklalyf hafa einnig áhrif. Ofnotkun sýklalyfja hamla vexti hagstæðra baktería í þörmum sem getur t.d. haft áhrif á ónæmiskerfið, sér í lagi hjá börnum. Ofnotkun sýklalyfja snemma á lífsleiðinni getur leitt til ofþyngdar og offitu, og/eða ýmissa sjúkdóma síðar á lífleiðinni.
Í landbúnaði, sérstaklega í verksmiðjubúskap, hefur tíðkast síðustu áratugi að nota sýklalyf sem vaxtarhvata og/eða til að fyrirbyggja sýkingar. Sýnt hefur verið fram á að notkun á sýklalyfjum í búfénaði hefur jafnframt skaðleg áhrif á þarmaflóru mannsins.
Matarlyst og ofát
Heilbrigði þarmaveggja er mikilvægt þar sem þeir stýra því hvað fer frá meltingarvegi út í líkamann. Óhagstæð örveruflóra í meltingarvegi getur aukið gegndræpi þarmaveggja, einkum smáþarmanna, og þannig stuðlað að langvinnum bólgum og öðrum vandamálum. Ákveðnar gram-neikvæðar bakteríur í meltingarveginum gefa frá sér efni sem nefnist lípópólýsakkaríð (LPS). Ef LPS komast út í blóðrásina getur það haft óæskileg áhrif á heilsu. Þegar gegndræpi þarmanna er of mikið á LPS greiðan aðgang að blóðrás og berst þannig um líkamann. Fjöldinn allur af rannsóknum staðfesta óæskileg áhrif LPS á heilsu.
Hormónið ghrelin sem verður til í meltingarvegi hefur áhrif á matarlyst, og til að mynda þá eykst framleiðsla þess þegar maginn er tómur. Aukin framleiðsla á ghrelin veldur aukinni matarlyst. LPS getur haft áhrif á ghrelinframleiðslu og þannig aukið líkurnar á ofáti vegna viðvarandi hungurs sem síðan leiðir til óæskilegrar þyngdaraukningar.
Leptin er annað dæmi um hormón, en það verður til í fitufrumum. Leptín slekkur á hungri og framkallar seddutilfinningu. Þegar maginn er fullur framleiðir líkaminn…
Lesa meira HÉR