Við vitum öll hversu slæm áhrif of mikil kyrrseta hefur á heilsuna enda hafa fjölmargar rannsóknir sýnt fram á tengsl hennar við hjartavandamál, sykursýki, offitu og andlát fyrir aldur fram.
Það er ekkert erfitt að skilja hvers vegna kyrrsetan eykur hættuna á of háum blóðþrýstingi, líkum á hjartaáfalli og óeðlilegum blóðsykri.
Gerir okkur eldri
En ekki einungis hefur of mikil kyrrseta áhrif á heilsufarið heldur sýna nýlegar rannsóknir fram á að hún geri okkur líka eldri. Talið er að hún hafi skaðleg áhrif á frumur líkamans. Og samkvæmt nýrri rannsókn sem framkvæmd var í University of California í Bandaríkjunum hefur kyrrsetan áhrif á það hversu hratt frumur líkamans eldast.
Í rannsókninni var blóð úr 1500 konum sem komnar voru yfir tíðahvörf rannsakað. Sjónum var einkum beint að þeim hluta frumnanna sem kallast litningsendi en hann ver erfðaupplýsingar litningsins. Svona líkt og plastið á enda skóreima sem ver reimarnar gegn því að leysast upp.
Með aldrinum eyðist smátt og smátt af þessum litningsenda, og með því að skoða frumurnar er hægt að segja til um aldur einstaklingsins.
Hreyfingin getur unnið á móti þessu
Í umræddri rannsókn báru vísindamennirnir saman lengd litningsenda og hversu mikið konurnar hreyfðu sig, til að geta sagt til um það hvort líkamleg hreyfing hefði áhrif á það hversu hratt við eldumst.
Í ljós kom að þær konur sem ekki hreyfðu sig daglega og sátu í tíu tíma eða meira hvern dag voru með styttri litningsenda en þær sem hreyfðu sig í að minnsta kosti 30 mínútur á dag. Magnið sem sem endinn hafði styst um samsvaraði heilum átta árum – sem þýðir að konur sem sátu stærsta hluta dagsins voru að meðaltali átta árum eldri en þær sem hreyfðu sig.
Stöndum upp og hreyfum okkur
Þá sýndi rannsóknin fram á að þótt margar konur sætu mikið þá hafði þessi daglega hreyfing það góð áhrif að talið er að hún geti dregið úr því hversu hratt við eldumst. Niðurstaðan er sem sagt sú að frumurnar eldast hraðar ef við bara sitjum og hreyfum okkur ekki neitt.
Ekki er þó enn vitað nákvæmlega hversu mikla hreyfingu þarf til vega upp á móti allri kyrrsetunni.