Margir sitja allan daginn í vinnunni og „slaka“ svo á í sófanum heima á kvöldin.
Kyrrseta er orðin svo miklu meiri en hún var hér áður fyrr og er því eðlilegt að áhrif hennar séu skoðuð.
Eins og flestir vita er það ekki gott líkamlegri heilsu að sitja of mikið og getur það aukið hættuna á ýmsum líkamlegu kvillum og sjúkdómum. En nú þykir sýnt að kyrrsetan hafi alvarleg áhrif á andlega heilsu og geti byggt upp kvíða hjá einstaklingum.
Ekki eins afslappað að vera sófadýr og við höldum
Niðurstöður rannsóknar sem framkvæmd var í Deakin háskólanum í Ástralíu þykir sýna fram á að það er ekki alveg jafn afslappað og virðist að vera sófadýr hedur geti það hreinlega aukið á stressið. Rannsóknin leiddi í ljós að fólk sem situr of mikið hvort sem það er fyrir framan tölvuna, sjónvarpið eða við að spila tölvuleiki, er í meiri hættu á að þjást að kvíða.
Samkvæmt rannsókninni þykir ljóst að því lengur sem setið er því meiri sé hættan á að þróa með sér kvíðaröskun. Þótt þeir sem að rannsókninni standa hafi ekki enn fundið orsakasamhengið á milli kyrrsetuhegðunar og kvíða þá draga þeir þá ályktun að hún geti stafað af truflun á svefnvenjum, lélegum efnaskiptum vegna hreyfingarleysis og litlum félagslegum tengslum.
Alvarlegt mál
Það er orðið alvarlegt þegar kyrrsetan hefur ekki aðeins áhrif á líkamlega heilsu heldur einnig þá andlegu. Til að koma í veg fyrir þetta er auðvitað best að vera stöðugt á hreyfingu en það getur þó verið erfitt þegar mikið er að gera.
Þá er mikilvægt að standa upp annað slagið og jafnvel spjalla aðeins við einhvern. Gott er að venja sig á að standa upp á klukkutíma fresti. Og þegar þú ert algjört sófadýr heima, t.d. um helgar, stattu þá upp annað slagið og teygðu úr þér.