Sigga Dögg kynfræðingur er alltaf að sýsla eitthvað spennandi. Núna er hún t.d. á fullu að flakka um landið með kynfræðslufyrirlestra fyrir unglinga og foreldra. Hún er líka að fara gefa út nýja bók í sumar sem heitir Á rúmstokknum og er síðan að skrifa aðra sem kemur út fyrir jólin.
Auk þess er hún með uppistand út um allar trissur. Það mætti því segja að það sé nóg að gera hjá þessari kláru konu sem samt gaf sér tíma til að vera með í „10 hlutum“ þessa vikuna.
Hér eru 10 hlutir sem þú vissir ekki um Siggu Dögg kynfræðing
Fullt nafn: Sigríður Dögg Arnardóttir
Aldur: 33
Starf: Kynfræðingur
Maki: Hemmi
Börn: Íris Lóa og Henry Nói
Hver var síðasti facebook status þinn?
Ég ætla bara segja það hreint út. Allir Andrar sem ég hef kynnst eru snillingar svo það er borðleggjandi að kjósa einn slíkan sem forseta! – 12.apríl 2016.
Hver er frægasta persóna sem þú hefur hitt?
Ég hef hitt þá nokkra því ég hef verið talsvert í Bandaríkjunum, en eftirminnilegast er þegar ég stóð á sviði með Peaches og söng Fuck the pain away fyrir troðfullum og sveittum sal í gamla Kling og bang.
Hver var fyrsta atvinna þin?
Í uppvaski á veitingastaðnum Glóðinni í Keflavík. Ég var 11 ára og uppþvottahanskarnir náðu mér upp að olnboga.
Kaffi eða te?
Kaffi en þá sérstaklega gott eins og frá Reykjavik Roasters.
Hvernig líta kosífötin þín út?
Þau eru skræpóttar náttbuxur og bolur í stíl og svo lopapeysa utan yfir og Harry Potter inniskór.
Hvað er í töskunni þinni?
Tölva, pennar, kynfæramyndir, eyrnalokkar, varasalvi, nammi, sími, snúrur, minnisbók, Svarthöfða USB lykilinn minn og fullt af túrtöppum og dömubindum (skvísa on-the-go þarf að vera undirbúin fyrir allskyns aðstæður).
Hvað er leiðinlegasta húsverkið þitt og af hverju?
Bara eiginlega almennt öll húsverk en ég sökka alveg sérstaklega í ryksugun, skúringum og baðherbergisþrifum.
Hvað er það sem þú borðar aldrei og munt aldrei borða?
Ég er ekki fyrir þorramat og ég get ekki lagt mér rollu til munns.
Það er venjulegt þriðjudagskvöld. Hvað ertu með í kvöldmatinn?
Það fer eftir því hvort ég sé í stuði og hvað sé til í ísskápnum. Þegar lítið er til þá hendi ég í amerískar pönnukökur og hrærð egg og smoothie og vekur það yfirleitt mikla lukku hjá heimilisfólki enda á ég alltaf allt til í akkúrat þessa máltíð.
Hvenær og hvar ertu hamingjusömust?
Ég er sérstaklega hamingjusöm þegar morgunverkin ganga vel fyrir sig, börnin fara á leikskólann og ég og maðurinn minn náum morgunkaffibolla saman í rólegheitum áður en förum að vinna. Mínum vinnudegi er svo eytt í allskyns fundi, tölvutíma og góðu spjalli við nána vinkonu og helst smá sólbaði. Svo sækjum við maðurinn minn börnin, gerum eitthvað saman eftir leikskólann öll fjölskyldan og kúrum svo yfir góðri mynd þar sem allir eru sofnaðir fyrir kl.21.
Kíktu inn á siggadogg.is
Sigga Lund