Mexíkóskir réttir tróna hátt á okkar lista yfir góðan mat. Það er alltaf ákveðin stemning að bjóða upp á mexíkanskt og virðist það falla að smekk flestra.
Hér er rosalega girnileg uppskrift að kjúklingatacos sem hún Svava á Ljúfmeti og lekkerheit segir að hafi slegið í gegn á sínu heimili.
Í skeljum eða kökum
Réttinn má bera fram í stökkum tacoskeljum, mjúkum tortillakökum eða bara með salati og nachos. Hér er hann borinn fram í mjúkum tortillakökum ásamt fínskornu iceberg, salsasósu, sýrðum rjóma og toppaður með muldu svörtu Doritos.
Kjúklingatacos undir ostabræðingi
Það sem þarf
- 900 g kjúklingabringur
- 2 pokar tacokrydd
- gul, rauð og græn paprika (1 í hverjum lit)
- stór rauðlaukur (eða tveir litlir)
- 200 g rjómaostur
- 1 dl sýrður rjómi
- 2 dl rifinn cheddarostur + smá til að setja yfir
- jalapenos
- nachos
Aðferð
Hitið ofninn í 225°.
Skerið kjúklingabringurnar í strimla, fínhakkið paprikurnar og skerið laukinn í báta.
Steikið kjúklinginn og kryddið með tacokryddinu.
Bætið papriku og rauðlauk á pönnuna og steikið í 1 mínútu.
Setjið blönduna yfir í eldfast mót.
Hrærið saman rjómaosti, sýrðum rjóma og rifnum cheddar osti. Dreifið úr ostablöndunni yfir kjúklingablönduna.
Stráið smá cheddar osti yfir ásamt fínhökkuðu jalapeno.
Setjið í ofninn í um 15 mínútur, eða þar til osturinn er bráðnaður. Takið út og skreytið með nachos.
Njótið!