Það er fátt betra en góð og næringarrík súpa á köldum síðkvöldum. Og ekki er verra ef súpan er stútfull af góðum næringarefnum, eins og þessi hér.
Þarna eru saman komin nokkur efni sem eru góð fyrir okkur, eins og t.d. túrmerik, hvítlaukur, gulrætur og tómatur.
Uppskriftin er frá henni Svövu okkar á Ljúfmeti og lekkerheit.
Gulrótar- og tómatsúpa með kókosmjólk (fyrir 4-6)
Það sem þarf
1 msk kókosolía eða ólívuolía
1 laukur, hakkaður
2 hvítlauksrif, hökkuð
1 tsk túrmerik
10 gulrætur, skolaðar og sneiddar
1 dós (400 g) plómutómatar eða um 5 hakkaðir ferskir tómatar
vatn, nóg til að fljóti yfir
sjávarsalt og svartur pipar
1 dós (400 g) kókosmjólk
Aðferð
Hitið olíu í potti.
Bætið lauki, hvítlauki og túrmerik í pottinn og steikið við vægan hita þar til mjúkt.
Bætið gulrótum og tómötum í pottinn og eldið í um mínútu, hrærið í pottinum á meðan.
Hellið vatni yfir þannig að rétt fljóti yfir og kryddið með sjávarsalti og pipar.
Látið sjóða við vægan hita í 15-20 mínútur eða þar til gulræturnar eru orðnar mjúkar.
Maukið súpuna með töfrasprota eða í matvinnsluvél, bætið síðan kókosmjólk saman við og smakkið til.
Ef súpan er bragðdauf getur verið gott að setja smá grænmetis- eða kjúklingakraft í hana.