Þessi ljúffenga súkkulaðikaka, frá henni Evu Laufey Kjaran, er líklega einhvers staðar á milli þess að vera frönsk súkkulaðikaka og brownie. Enda er hún alveg einstaklega góð með þeyttum rjóma. Ekki skemmir nú Oreo-kexið fyrir en það gerir kökuna enn betri. Þetta er kaka sem þið munið baka aftur og aftur.
Uppskriftin er úr bókinni Matargleði Evu frá Bókaforlaginu Sölku.
Það sem þarf
170 gr. smjör
190 gr. súkkulaði, helst dökkt
3 egg
2 eggjarauður
2 tsk. vanillu extrakt eða vanillusykur
150 gr. púðursykur
1/2 tsk. lyftiduft
salt á hnífsoddi
2 msk. hveiti
1 msk. kakó
180 gr. Oreo kexkökur
Aðferð
Stillið ofninn á 180°C.
Bræðið súkkulaði og smjör saman við vægan hita, hrærið vel í blöndunni á meðan. Þegar súkkulaðið er bráðnað takið þið pottinn af hellunni og kælið blönduna.
Þeytið egg og eggjarauður saman þar til blandan verður létt og ljós.
Bætið púðursykrinum saman við í tveimur skömmtum, gætið þess að setja sykurinn saman við á hliðunum svo loftið fari ekki úr blöndunni. Hrærið mjög vel á milli.
Blandið súkkulaðiblöndunni út í og hrærið vel í.
Brjótið Oreo kökur gróflega niður og setjið 80 grömm saman við deigið. Setjið einnig kakó, hveiti, lyftiduft og vanillu saman við. Blandið öllu mjög vel saman.
Smyrjið eldfast mót, (Eva segist nota 20 cm bökunarmót).
Auk þess bendir hún á að henni finnist best að klippa út bökunarpappír og setja í botninn, þá verði mun auðveldara að ná kökunni úr forminu.
Hellið deiginu því næst í formið og brytjið niður afganginn af Oreo kökunum og dreifið yfir, ýtið lauslega á hvern Oreo kökubita svo hann fari vel ofan í deigið.
Setjið kökuna inn í ofn við 180°C í 30-35 mínútur.
Kælið kökuna mjög vel áður en þið takið hana úr forminu.
Sigtið örlítið af flórsykri yfir kökuna og berið hana fram með þeyttum rjóma og berjum.