Svo virðist vera sem mýtan um hina vitlausu ljósku eigi ekki við rök að styðjast því nýleg rannsókn hefur leitt annað í ljós.
Í gegnum tíðina hefur mikið verið grínast með ljóskur og gáfnafar þeirra og er oft sagt í gríni að einhver sé algjör ljóska, sem merkir þá að viðkomandi sé vitlaus, tregur eða kjánalegur.
Staðalímynd ljóskunnar hefur sem sagt í gegnum árin verið sú að þær séu ósköp vitlausar.
Staðalímynd sem ekki á við rök að styðjast
En rannsókn sem birt var í Economics Bulletin leiðir í ljós að staðalímynd ljóskunnar eigi ekki við rök að styðjast. Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að ljóshærðar konur hafa hærri greindarvísitölu en þær rauðhærðu og dökkhærðu. Þetta á þó fyrst og fremst við þær konur sem eru náttúrulega ljóshærðar.
Munurinn á greindarvísitölu þeirra ljóshærðu og annarra var svo sem ekki mikill en samt örlítið hærri.
Ekki endilega bara hárliturinn
Þeir sem að rannsókninni standa vilja þó ekki fullyrða að þetta megi eingöngu tengja við genatískan hárlit því þær ljóshærðu konur sem þátt tóku í rannsókninni höfðu alist upp á heimili þar sem meira var til af lesefni en á heimilum kvenna með annan háralit.
Niðurstöður fyrir ljóshærða karlmenn voru svipaðar.
Þeir sem að rannsókninni standa vilja þó ekki draga þá ályktun út frá niðurstöðunum að ljóskur séu greindari en aðrar konur – en með sanni megi þó segja að í það minnsta séu þær þó ekki vitlausari.