Fyrir jólin þegar allir keppast við að gera allt „fullkomið“ fyrir hátíðina gleymist stundum að næra hjartað.
Það er dyggð að vera þakklátur. Kvart og kvein skilar aldrei neinu og sama hversu bágt manni finnst maður eiga þá er alltaf einhver einhvers staðar sem á meira bágt en maður sjálfur. Engu að síður leyfir maður sér stundum að kvarta yfir hlutum sem skipta engu máli – já nákvæmlega engu máli þegar upp er staðið!
Tími kærleikans
Jólin eru svo sannarlega tími kærleikans og margt er hægt að gera til að rækta hann. Með því að gera öðrum gott gerir maður um leið sjálfum sér gott. Það er nú bara þannig að hjartað stækkar hjá mörgum á þessum árstíma. Og um það snúast einmitt jólin, að fá hjartað til að stækka og kærleikann til að blómstra.
Kærleik má sýna á ýmsa vegu og málið er að oft þarf ekki mikið til. Sumir geta gefið af sér fjárhagslega, aðrir geta gefið af tíma sínum og enn aðrir veitt andlegan stuðning. Allt skiptir þetta jafnmiklu máli.
Hér eru 25 atriði sem eru vel til þess fallin að hjálpa og gleðja nú fyrir jólin – og um leið til að næra eigið hjarta
1. Veittu eldri einstaklingum samfélagsins athygli og aðstoð við jólaundirbúninginn.
2. Brostu vingjarnlega til allra þeirra sem hlaupa um úttaugaðir fyrir jólin – mundu að eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt.
3. Fylltu aukapoka í matvörubúðinni til að gefa einhverjum sem á þarf að halda.
4. Heimsæktu ömmu, afa, langömmu, langafa, langalangömmu, langalangafa og …
5. Sýndu öllum sjálfsagða kurteisi og velvilja.
6. Settu pakka undir jólatréð í Kringlunni.
7. Leyfðu þeim sem er með einn (tvo eða þrjá …) hluti að fara fram fyrir þig í röðinni í matvörubúðinni.
8. Gefðu af tíma þínum til Mæðrastyrksnefndar, Fjölskylduhjálpar Íslands eða Hjálparstofnunar kirkjunnar – sem allar eru með matarúthlutanir fyrir jólin.
9. Kíktu í fataskápana og athugaðu hvort þar leynist ekki eitthvað sem þú notar aldrei en einhver annar gæti vel nýtt sér.
10. Gefðu þér raunverulega tíma til að hlusta á einhvern sem þarfnast þess að tala.
11. Haltu hurðinni fyrir náungann.
12. Gefðu „séns“ í umferðinni og hleyptu öðrum bílum inn í.
13. Knúsaðu, knúsaðu, knúsaðu og …
14. Gefðu einhverjum eftir bílastæðið þitt, og finndu þér annað stæði.
15. Segðu einhverjum (eða öllum) hvað þér þykir vænt um hann.
16. Gefðu blóð í Blóðbankann.
17. Heimsæktu einhvern sem þú veist að er einmana, eða bjóddu honum/henni heim.
18. Hrósaðu og sláðu fólki gullhamra – en það verður samt að koma frá hjartanu.
19. Hlúðu að þeim sem eru veikir.
20. Gefðu fjármuni til hjálparsamtaka sem styðja við þá sem minna mega sín.
21. Bakaðu smákökur og/eða köku fyrir einhvern sem ekki er fær um það.
22. Keyptu gjafakortin „Gjöf sem gefur“ hjá Hjálparstofnun Kirkjunnar.
23. Þakkaðu afgreiðslufólki, sem veitir þér góða þjónustu, fyrir með bros á vör og láttu vita að þú sért ánægð/ur með þjónustuna.
24. Sýndu þakklæti þegar einhver sýnir þér velvilja.
25. Og þótt þú hafir átt erfiðan dag reyndu samt að vera vingjarnleg/ur og brosa því það er algjör óþarfi að láta öðrum líka líða illa.
Og mundu að það er alltaf einhver einhvers staðar sem hefur það erfiðara en þú.
Jóna Péturs – kokteillinn@gmail.com