Öll erum við ólík sem einstaklingar en vissir þættir lífsins einkenna okkur engu að síður sem mannverur.
Tilfinningar okkar eru til dæmis stór hluti af því hver við erum og án þeirra værum við eflaust nokkuð litlaus.
Tilfinningalegur styrkur
Við látum gjarnan stjórnast af tilfinningum okkar enda eru þær okkar helsti hvati í lífinu. Þegar við látum stjórnast af tilfinningunum getum við átt það á hættu að þær beini okkur í ranga átt í lífinu. Þess vegna skiptir tilfinningalegur styrkur miklu máli.
Hér að neðan er eitt og annað sem tilfinningalega sterkir einstaklingar forðast að gera – eða gera yfir höfuð alls ekki.
Fjórtán atriði sem tilfinningalega sterkir einstaklingar gera eða gera ekki
1. Láta ekki halda sér niðri
Þeir láta aðra ekki brjóta sig niður hvað þá halda sér niðri í lífinu. Þarna úti er fullt af fólki sem er tilbúið að segja þér að allt sé ómögulegt og vonlaust.
Þeir sem eru tilfinningalega sterkir útiloka slíkt fólk frá lífi sínu. Vissulega getur það verið erfitt en á sama tíma getur það líka auðveldað lífið til mikilla muna.
2. Kvíða ekki morgundeginum
Tilfinningalega sterkir einstaklingar kvíða ekki morgundeginum. Þeir láta sig hlakka til og fagna hverjum nýjum degi sem færir þeim ný tækifæri. Þessir einstaklingar eru þakklátir fyrir að fá að vakna á hverjum morgni og taka lífinu ekki sem sjálfsögðum hlut.
3. Þrá ekki athygli
Þeir sækjast ekki eftir athygli. Athyglisþörf og þörf fyrir viðurkenningu má tengja beint við tilfinningar og óöryggi með sjálfan sig. Tilfinningalega sterkar manneskjur trúa á sjálfar sig og þrífast ekki á viðurkenningu annarra.
4. Gera eins og þeir vilja
Þessir einstaklingar gera það sem þeir gera af því þeim finnst það skemmtilegt. Líf þeirra snýst ekki um hvað öðrum finnst eða hvað aðrir vilja að þeir geri.
5. Velja fólk
Þeir hleypa ekki hverjum sem er að sér eða inn í líf sitt. Þetta fólk velur hvern það vill umgangast og það tekur ekki áhættu í svo viðkvæmum málum.
6. Fyrirgefa
Tilfinningalega sterkir einstaklingar halda ekki í reiðina heldur fyrirgefa. Að halda í heiftina og hugsa stöðugt um hefnd þýðir að þú leggur meiri áherslu á ákveðin atvik en þú ættir að gera.
Fyrirgefningin er mikilvæg til að halda áfram auk þess sem heift og hefndarhugur draga úr andlegum styrk.
7. Val og verkefni
Þessir einstaklingar gera ekki hluti sem þeir vilja alls ekki gera. Engu að síður gera þeir sér fulla grein fyrir því að enginn er svo heppinn að gera eingöngu það sem hann elskar að gera. Verk og verkefni eru misskemmtileg og sumt þarf einfaldlega að gera til þess að færast nær markmiðum sínum.
8. Sjálfstæðir
Þessir einstaklingar hafa enga þörf fyrir að falla í hópinn. Því sterkari sem þú ert á tilfinningalega sviðinu því sjálfstæðari ertu sem manneskja. Að hafa þörf fyrir að falla í hópinn lýsir fyrst og fremst óöryggi og ósjálfstæði.
9. Koma vel fram
Þeir haga sér hvorki eins og asnar né láta fáránlega. Að koma illa fram við aðra eða gera lítið úr öðrum er ekki í þeirra eðli. Þörfin fyrir að drulla yfir aðra sprettur af lélegu sjálfstrausti.
10. Kunna að segja nei
Tilfinningalega sterkir einstaklingar eiga ekki í vandræðum með að segja nei.
Ef þú átt erfitt með að segja nei eru miklar líkur á því að fólk notfæri sér það. Að segja nei gerir fólki ljóst að það geti ekki ráðskast með þig.
11. Spenna
Þessir einstaklingar hafa ekki þörf fyrir að lifa í stöðugri spennu og vera alltaf að. Þess vegna óttast þeir ekki að hægja aðeins á – og því kunna þeir að meta rólegar gæðastundir. Að kunna að slaka á og finna ilminn af blómunum er þeim jafn eðlilegt og allur erillinn sem einkennir líf þeirra þess á milli.
12. Elska
Tilfinningalega sterkir einstaklingar eru ekki hræddir við að elska því þeir hafa sjálfstraust til að takast á við það ef hlutirnir ganga ekki upp.
13. Gefa
Þessir einstaklingar gleyma ekki að gefa til baka í formi peninga eða tíma. Þeir kunna að meta það sem þeir hafa og gera sér grein fyrir því að ekki fá allir jafn góð spil á hendi í lífinu.
14. Hamingjan
Og síðast en ekki síst þá gleyma tilfinningalega sterkir einstaklingar því ekki að hamingjan er ákvörðun. Þeir skilja að tilfinningar stjórna því hvernig við bregðumst við. Og þeir hafa líka lært að heilinn hefur vald yfir bæði líkama og sál.
Þessir einstaklingar hafa valið að vera hamingjusamir og gæta sín þess vegna á því að láta ekki stjórnast eingöngu af tilfinningum sínum.