Ert þú týpan sem lætur alltaf aðra ganga fyrir en situr svo sjálf á hakanum?
Hugsar þú fyrst og fremst um þarfir annarra?
Gerirðu ekki líka oft eitthvað sem þig langar ekkert til og sleppir því sem þig virkilega langar til?
Svo algengt hjá konum
Þetta er ótrúlega algengt hjá konum. Yfirleitt byrjar þetta á sama tíma og þær stofna til fjölskyldu og börnin koma til sögunnar. Enda svo sem ósköp eðlilegt því lítil börn taka alla orku manns og tíma til að byrja með og þar af leiðandi verður enginn tími afgangs í eitthvað annað.
Auk þess minnkar heimurinn aðeins á þessum tíma og allt snýst meira og minna um fjölskylduna. En málið er að allt of margar konur festast einmitt þarna – þær komast ekkert út úr fjölskyldupakkanum og enda á því að týna sjálfum sér örlítið um leið.
Halda áfram að ganga undir börnunum
Sumar konur lifa fyrir fjölskylduna sína og miða allar sínar athafnir meira og minna við aðra fjölskyldumeðlimi. Þetta gengur í ákveðinn tíma en það getur þó reynst erfitt að vinda ofan af áralangri fórnfýsi.
Þegar börnin stækka og eldast er fullkomlega eðlilegt að konan fari smátt og smátt að gefa sjálfri sér meiri tíma og svigrúm. En margar konur gera það alls ekki. Í stað þess að fara að hugsa meira um sjálfar sig halda þær áfram að ganga undir börnunum og öllum öðrum í fjölskyldunni þótt börnin séu ekki lengur börn heldur fullorðnir einstaklingar.
Það hvarflar hreinlega ekki að sumum konum að snúa dæminu við og setja sjálfa sig í fyrsta sæti. Kannski eru þær alveg búnar að gleyma því að einu sinni voru þær einar og þurftu ekki stöðugt að setja þarfir annarra ofar sínum eigin. Er virkilega svona erfitt að slíta þennan streng?
Auðvitað er dýrmætt að eiga góða fjölskyldu en lífið er meira en fjölskyldan. Konur þurfa líka að lifa eigin lífi utan fjölskyldunnar því það gera bæði börnin og makinn svo sannarlega. Börnin eiga til dæmis sína vini og stunda sín áhugamál. Sumar konur eiga einmitt erfitt þegar börnin vaxa úr grasi og flytja að heiman. Þá beina þær oft allri sinni orku að barnabörnunum og sagan endurtekur sig.
Eru sumar konur svona háðar viðurkenningu sinna nánustu, eða jafnvel samfélagsins? Og með því að gera stöðugt öðrum til geðs þá öðlast þær þá viðurkenningu sem þær þarfnast? Afleiðingin er því miður sú að með þessu týna þær svolítið sjálfum sér um leið.
Að setja sjálfa sig í forgang
Vissulega er móðurhlutverkið eitt af okkar stærstu hlutverkum í lífinu og því lýkur aldrei. Engu að síður er samt eðlilegt að áherslur breytist með aldrinum. Eitt af því besta sem hver kona getur gert fyrir sjálfa sig eftir fertugt er að setja sig í forgang. Kannski finnst sumum þetta hljóma eigingjarnt og eiga erfitt með að stíga þetta skref. En það að setja sjálfa sig í fyrsta sæti þýðir samt ekki að þú elskir ekki makann, börnin eða barnabörnin. Málið snýst einfaldlega um að nú er komið að þér að hugsa betur um sjálfa þig fyrir öll árin framundan.
Nú er nefnilega kominn tími til að finna dansskóna, panta tíma í nudd, læra nýtt tungumál, labba á fjöll, fara á matreiðslunámskeið, skipuleggja heimsreisu… eða eitthvað annað sem þig hefur alltaf dreymt um. Láttu verða af því!
Láttu þetta allt snúast um þig núna og hvað þú vilt gera – ekki það sem aðrir vilja.