Kristinn Sigmundsson er einn okkar ástsælasti söngvari og stendur nú á hátindi ferils síns.Hann hefur víða komið við á ferli sínum og sungið í mörgum af helstu óperuhúsum heims og nægir þar að nefna La Scala í Mílanó, Ríkisóperuna í Vínarborg, Þjóðaróperuhúsin í París, Metropolitan óperuna í New York og San Francisco-óperuna.
Starfar í Los Angeles
En Kristinn lætur ekki þar við sitja því hann hefur einnig tekið þátt í nokkrum hljóðritunum með erlendum hljómsveitum, m.a. Töfraflautunni og Don Giovanni með hljómsveit Drottningholm-óperunnar, Mattheusarpassíu og Jóhannesarpassíu Bachs með Orchestra of the eighteenth century og Rakaranum í Sevilla með Útvarpshljómsveitinni í München.
Undanfarna mánuði hefur Kristinn sungið í The Ghosts of Versailles eftir John Corigliano, Brúðkaupi Fígarós og Rakaranum í Sevilla í óperunni í Los Angeles.
Haustið 2014 steig Kristinn á svið Íslensku óperunnar í fyrsta sinn eftir 12 ára hlé og fór eftirminnilega með eitt voldugasta bassahlutverk óperusögunnar, Filippus konung og föður Don Carlo í samnefndri óperu. Og í haust tekur hann aftur þátt í uppfærslu hjá Íslensku óperunni þegar hann syngur hlutverk Don Basilio í Rakaranum frá Sevilla.
Syngur aríur úr nokkrum af sínum uppáhalds óperum
Fimmtudaginn 3. september og föstudaginn 4. september mun Kristinn, ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands, gleðja okkur með söng sínum í Eldborgarsal Hörpu. Hér er um að ræða opnunartónleika Sinfóníuhljómsveitarinnar þetta starfsárið.
Á tónleikunum ætlar Kristinn að taka aríur úr nokkrum af uppáhaldsóperum sínum og bregða sér í hlutverk Don Basilio í Rakaranum frá Sevilla eftir Rossini, greifans í Brúðkaupi Fígarós eftir Mozart, Bancos úr Macbeth og Sakaríasar í Nabucco eftir Verdi.
Þá verður Óperukórinn í Reykjavík Kristni til halds og trausts á, en stjórnandi hljómsveitarinnar verður Rico Saccani sem er annálaður túlkandi óperutónlistar.
Þetta verður án efa skemmtilegt.