Á breytingaskeiði getur konum liðið illa og þær vita stundum ekkert hvernig þær eiga að bregðast við þeim breytingunum sem þær eru að ganga í gegnum.
En mitt í öllum þessum breytingum leiða víst fæstar konur hugann að því hvernig mökum þeirra líður. Þær átta sig því ekki á að líklega líður makanum ekkert allt of vel né því hversu óöruggur hann getur verið með tilfinningar konu sinnar gagnvart sér.
Hver er þessi nýja kona?
Ekki er ólíklegt að makinn sé ráðvilltur, áhyggjufullur og óttasleginn. Hann hefur aldrei séð konuna sína svona áður og hræðist það hvað hún getur verið kuldaleg, fjarlæg og snögg að skipta skapi. Þetta er allt nýtt fyrir honum líka og hann þekkir ekki þessa nýju konu. Hvað á hann að segja og hvernig á hann að spyrja?
Það má ekki gleymast að konan þín er enn sama konan og áður, jafnvel þótt ykkur báðum finnist svo ekki vera. Þetta tímabil tekur enda og konan finnur sig aftur og kemur tvíefld tilbaka. En á meðan þetta gengur yfir þarf hún virkilega á þér að halda – og að þú sýnir henni skilning.
Þessi grein tengist efni bókarinnar Frábær eftir Fertugt.
Hér eru því nauðsynleg ráð fyrir þig kæri maki
1. Hvettu konuna þína til að tala um hvernig henni líður.
2. Hvettu hana til að ræða breytingaskeiðið við þig.
3. Hlustaðu á hana.
4. Taktu hana trúanlega – hún er ekki að ímynda sér þetta allt.
5. Ekki grínast með breytingaskeiðið.
6. Ekki gera grín að því að hún muni ekki neitt þessa dagana.
7. Láttu hana vita að þér þyki ekkert minna til hennar koma núna.
8. Hvettu hana til að leita læknis ef henni líður illa.
9. Ekki taka ákvarðanir fyrir hana.
10. Styddu hana í því hvernig hún ákveður að taka á einkennum breytingaskeiðsins.
11. Ef hún vill ekki taka uppbótarhormóna þá er það hennar mál en ekki þitt.
12. Vertu hvetjandi í því sem hún tekur sér fyrir hendur.
13. Hvettu hana til þess að gera eitthvað nýtt.
14. Láttu hana vita að þér finnist hún enn kynferðislega aðlaðandi og kynþokkafull.
15. Sýndu henni að þér finnist hún frábær.
16. Sýndu henni að þú elskir hana.
17. Reyndu að taka ekki of nærri þér það sem hún segir eða gerir – þótt það geti stundum verið erfitt.
18. Vertu þolinmóður við hana – þótt það geti tekið á.
19. Haltu í húmorinn og láttu hana finna að það geti enn verið gaman hjá ykkur saman.
20. Ekki þrýsta á hana með kynlíf – áhuginn rokkar með hormónunum.
21. Mundu að skilningur er lykillinn að betri samskiptum við hana.
22. Og síðast en ekki síst: Mundu að þetta tekur enda!
Jóna Ósk Pétursdóttir