Kokteill mánaðarins að þessu sinni er grænn drykkur, og já það er spurning hvort þetta sé ekki bara hollustudrykkur.
Eykur brennsluna
Hann inniheldur meðal annars agúrku, sem er ægilega góð fyrir okkur og hjálpar til við brennsluna. Agúrkan inniheldur afar fáar hitaeiningar og getur auk þess haft jákvæð áhrif á bólgur í líkamanum.
Nú þá inniheldur kokteillinn líka tekíla en það er talið geta haldið blóðþrýstingi í skefjum og einnig kólesteróli líkamans, og á að vera gott fyrir ristilinn. Þá þembist maður ekki upp af tekíla og það getur hjálpað til við að losna við kvef.
Og svo er það myntan en hún hefur líka ýmis góð áhrif á líkamann.
Erum við ekki að tala um hollustudrykk hér 😀
Það sem þarf
¼ bolli agúrka, skorin í bita
nokkur myntulauf
1 cl piparmyntusíróp
1,5 cl límónusafi
4,5 cl tekíla
klaki
Aðferð
Drykkurinn er hrærður/maukaður í blandara.
Skerið agúrkuna í bita og setjið í blandarann.
Bætið myntunni við.
Hellið sírópinu, límónusafanum og tekíla út í.
Bætið að lokum klaka saman við.
Hrærið síðan vel saman.
Takið glas og nuddið límónu á barmana og veltið síðan börmunum upp úr sjávarsalti.
Hellið drykknum í glasið og skreytið með agúrku og myntu ef vill.
Njótið!
Uppskrift fengin af tastemade.com