Kjúklingur klikkar ekki enda eru kjúklingauppskriftir í miklu eftirlæti.
En sumir kjúklingaréttir eru samt betri en aðrir og það á svo sannarlega við um þennan rétt sem við höfum gert ansi oft. Svo er hann líka hollustan uppmáluð – sem er ekki verra!
En uppskriftina fengum við hjá henni Svövu á Ljúfmeti og lekkerheit.
Það sem þarf
- 1 stóra sæta kartöflu
- 1 poka spínat
- 4-5 kjúklingabringur
- 1 krukku fetaost
- 1 lítinn rauðlauk, skorinn fínt
- heilsutómata eða konfekttómata, skornir í bita
- furuhnetur
- balsamik gljái
Aðferð
Hitið ofninn í 180°.
Skrælið sæta kartöflu og sneiðið hana með ostaskera. Látið kartöflusneiðarnar í eldfast fat/mót, hellið smá ólífuolíu yfir, saltið og piprið og setjið inn í ofn í 15 mínútur eða á meðan kjúklingurinn er undirbúinn.
Skerið kjúklingabringurnar í bita og steikið stutt á heitri pönnu. Kryddið eftir smekk, ýmis kjúklingakrydd eru góð og svo má nota fajita-krydd.
Þegar kartöflurnar hafa verið í ofninum í 15 mínútur eru þær teknar út. Setjð spínatið yfir kartöflurnar og kjúklinginn þar yfir.
Stráið tómötum og rauðlauk yfir og hellið að lokum fetaostinum ásamt olíunni yfir allt. Setjið í ofn og bakið í 30 mínútur.
Á meðan rétturinn er í ofninum eru furuhneturnar ristaðar. Þegar fatið er tekið úr ofninum er furuhnetunum stráð yfir og að lokum er balsamik gljáa dreypt yfir.
Okkur finnst meðlæti algjör óþarfi með þessum rétti – því hann er fullkominn eins og hann er.