Tónlist Frank Sinatra er algjörlega tímalaus og við í minni fjölskyldu erum miklir aðdáendur þessa flotta og svala söngvara. Sinatra var einhvern veginn með þetta allt saman.
Matgæðingurinn Sinatra
En það sem kannski ekki allir vita er að hann var líka mikill matgæðingur og undi hann sér vel í eldhúsinu við að elda ofan í gesti sína. Eins og gefur að skilja var hann mikið fyrir ítalskan mat enda var fjölskylda hans eins ítölsk og þær gerast.
Ég prófaði um daginn að gera þessar kjötbollur úr uppskriftasafni Sinatra ásamt hinni rómuðu sósu mömmu hans. Fjölskyldumeðlimir voru afar kátir með útkomuna og eru kjötbollurnar hans Sinatra klárlega komnar á listann yfir uppáhalds réttina.
Það sem þarf
Í bollurnar
450 gr nautahakk
225 gr svínahakk
2 egg
½ bolli vatn
½ bolli brauð, mulið
½ bolli niðurrifinn ítalskur ostur (ég notaði Parmesan)
2 – 3 hvítlauksrif
½ tsk pipar
¾ tsk salt
ólífuolía til steikingar
Aðferð
Blandið eggjum og vatni saman í skál.
Bætið síðan brauðmylsnu, salti, pipar og hvítlauk saman við. Látið standa í 5 mínútur.
Blandið hakki og osti saman í annarri skál og bætið síðan út í brauðblönduna. Hrærið þetta vel saman.
Mótið þá bollur úr hakkblöndunni.
Setjið ólífuolíu á pönnu og brúnið bollurnar allan hringinn.
Skellið bollunum í eldfast mót og bakið í ofni við 180 gráður í 15 mínútur.
Ef vill má líka klára að steikja bollurnar alveg á pönnunni.
Sósa mömmunnar
½ bolli ólífuolía
1 laukur, smátt skorinn
4 hvítlauksrif
1 dós niðursoðnir tómatar
2 – 3 msk tómatpúrra
1 ½ tsk óreganó
1 ½ tsk basilíka
1 ½ tsk ítalskt krydd
salt og svartur pipar
Aðferð
Hitið olíuna í meðalstórum potti við miðlungshita.
Setjið laukinn út í olíuna og látið malla þar til hann er orðinn mjúkur, í svona ca 5 mínútur.
Bætið hvítlauknum saman við og látið malla í svona 2 mínútur.
Setjið þá tómatana út í pottinn. Hitið að suðu og eldið á lágum hita þar til sósan þykknar, þetta tekur um 15 til 20 mínútur.
Blandið síðan kryddinu vel saman við og saltið og piprið að smekk.
Látið malla við vægan hita í aðrar 15 mínútur eða svo.
Á meðan sósan sýður setjið þá 300 til 500 gr af spagettí í pott og sjóðið samkvæmt leiðbeiningum (magnið fer eftir því hversu mikið pasta þið viljið).
Þegar allt er tilbúið setjið spagettí á diska og bollur þar ofan á. Dreifið síðan sósunni yfir og rífið parmesan ost þar yfir ef vill.
Njótið!
jona@kokteill.is