Leikarinn Keanu Reeves lætur yfirleitt ekki mikið fyrir sér fara. Engu að síður er þetta leikari sem hefur slegið rækilega í gegn og þénað vel á myndum sínum.
Flestir muna eflaust eftir honum úr myndinni The Matrix frá árinu 1999 en sú mynd varð afar vinsæl, mokaði inn tekjum og var tilnefnd til fjölda verðlauna.
Þig mun langa til að gefa honum knús
En líf Keanu hefur síður en svo verið dans á rósum. Í dag er hann 52 ára og hefur gengið í gegnum ýmislegt um ævina en haldið ótrauður áfram. Hann þykir einstaklega ljúfur einstaklingur með fallegt hjartalag. Og það er svo sannarlega ástæða fyrir því að hann virðist alltaf vera svona sorgmæddur – enda mun þig líklega langa til að gefa honum knús eftir þennan lestur.
Þegar Keanu var aðeins þriggja ára gamall yfirgaf faðir hans fjölskylduna og slitnaði samband þeirra feðga alveg eftir nokkur ár. Á þessum tíma flutti Keanu frá einni borg til annarar og gekk t.d. í fjóra menntaskóla. Hann átti erfitt uppdráttar í náminu enda lesblindur. Að lokum hætti hann í skóla án þess að klára eða útskrifast.
Lifir með sorginni
Keanu var 23 ára gamall þegar hann missti besta vin sinn úr eiturlyfjaneyslu. En það tók virkilega á hann og segist hann enn í dag hugsa til reglulega til vinar síns. Það var svo árið 1998 sem Keanu og Jennifer Syme hittust. Þau urðu yfir sig ástfangin og ári seinna áttu þau von á stúlkubarni. Eftir átta mánaða meðgöngu fæddist barnið andvana. Eins og gefur að skilja var parið gjörsamlega eyðilagt og að lokum flosnaði samband þeirra upp. Aðeins einu og hálfi ári seinna lést svo Jennifer í bílslysi.
En Keanu hélt áfram og lifir með sorginni. Hann hefur leikið í nokkrum vinsælum myndum og efnast vel. Lífið og reynsla hans hefur þó breytt því hvernig hann hugsar um peninga.
Leikarinn er þekktur í Hollywood fyrir að vera einn af þeim örlátustu og telur hann það ekki eftir sér að gefa peninga geti hann hjálpað. Eftir vinsældir The Matrix gaf hann t.d. 80 milljónir af 114 milljóna hlut sínum til þeirra sem sáu um förðun og tæknibrellur í myndinni. Þá hefur hann tekið á sig launalækkanir til þess að aðrir frægir leikarar fái meira svo hægt sé að halda verkefninu á fjárhagsætlun. Geri aðrir betur!
Ein indælasta manneskjan í Hollywood
Leikarinn geðþekki er umtalaður fyrir góðverk sín og má ekkert aumt sjá. Þá er hann einn af fáum sem leggur sig fram við að þekkja alla með nafni, heilsar öllum og talar við alla sem jafningja. Af mörgum er hann talinn vera ein indælasta manneskjan í Hollywood.
Og þótt þessi frægi maður eigi næga peninga kýs hann einfaldleikann umfram allt. Hann segir peninga vera það sem hann hugsi síst um. Þá þykir líka merkilegt að þrátt fyrir frægð og frama notar hann enn neðanjarðarlestina og finnst það bara gott.
Það er ekki hægt annað en að vera sammála því að þessi maður er einstakur.
Hér má sjá myndband þar sem Keanu er einmitt í lest og auðvitað tillitssemin uppmáluð þar sem hann gefur eftir sætið sitt.