Í gegnum tíðina hefur verið grínast með það hvað karlmenn verða veikir þegar þeir fá flensu – og hafa konur gjarnan hlegið að því hversu aumlega þeir bera sig.
En nýleg rannsókn sem framkvæmd var við John Hopkins háskólann í Bandaríkjunum sýnir fram á að það er víst staðreynd að karlmenn verða virkilega mun veikari en konur þegar þeir fá flensu. Svo það er greinilega engin ástæða til að hlæja að þessu.
Hafa ekki sömu vörn og konur
Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að það sé hormónið estrógen sem veiti konum meiri vörn gegn flensu. En estrógen er kvenhormón sem karla vantar og því hafa þeir ekki þessa sömu vörn gegn flensu og konur..
Þeir sérfræðingar sem að rannsókninni standa segja að ekki sé enn nákvæmlega vitað hvað það sé við estrógenið sem hafi þessi áhrif en þeir hafa þó ákveðnar hugmyndir sem er verið að skoða.
Tíu sinnum veikari
Konur geta því látið af því að gera grín að veikum mönnum sínum, því þeir eru virkilega veikir og reyndar tíu sinnum veikari en þær þegar þeir fá flensu. Og það er ekki svo lítið!