Nú geta allir kaffiunnendur glaðst því í nýlegri erlendri bók er fullyrt að kaffi sé einstaklega gott fyrir heilsuna og í því að halda þyngdinni í skefjum.
Í bókinni, sem heitir The Coffee Lover´s Diet, er m.a. fjallað um hvaða áhrif kaffi hefur á líkamann, góð ráð gefin og farið í það hvernig best er að gera kaffið. En þema bókarinnar er kaffikúrinn sjálfur, eins og nafn hennar gefur til kynna.
Brenna fleiri hitaeiningum
Höfundurinn, Bob Arnot sem er blaðamaður og sérfræðingur í heilsu og hollustu, segir kaffi vera frábært „meðal“ í því að léttast. Hann segir í bókinni að kaffi auki brennsluna og dragi úr slæmum áhrifum feitrar fæðu á líkamann. Þá brenni þeir sem drekka kaffi fleiri hitaeiningum en þeir sem ekki drekka kaffi. Bob segir að við brennum alla vega 100 fleiri hitaeiningum á dag ef við fáum okkur kaffi í stað þess að sleppa því.
Þá bendir hann á gott sé að fá sér kaffi fyrir líkamsræktina/hreyfinguna því með því brennir þú mun meira af fitusýrum. Forsenda kaffikúrsins er sú að kaffi brenni fitu, dragi úr matarlyst og auki brennsluna.
En hvernig kaffi?
Höfundurinn leggur þó áherslu á að fólk verði að borða skynsamlega vilji það nýta sér kaffikúrinn. Og drekka skuli heitt svart kaffi strax á eftir máltíð, áður en farið er í bað og eins og áður sagði; fyrir líkamsræktina.
Þetta snýst sem sagt ekki um það að þamba kaffi daginn út og daginn inn – heldur að drekka það á réttum tíma. Hér er ekki heldur verið að tala um sælkerakaffi eins og t.d. latte og aðra slíka drykki.
Lengi hefur verið fjallað um kaffi sem óhollustu og óþarfa en í dag eru sífellt fleiri á þeirri línu að kaffi sé gott fyrir heilsuna – en auðvitað í hófi. Má því til stuðnings benda á rannsóknir sem sýna fram á tengsl kaffidrykkju við minni líkur á sjúkdómum eins og Parkinsons, Alzheimer og sykursýki 2.