Hver kannast ekki við hana Siggu Kling?
Hún er ein af þessum konum sem gefur lífinu svo sannarlega lit og við á Kokteil ætlum að vera svo frökk að segja að Ísland væri ekki samt án hennar.
Nýorðin amma
Fyrir utan að semja vinsælustu stjörnuspá landsins, sem birtist á vísi.is í hverjum mánuði, er Sigga um þessar mundir að skrifa tvær bækur. Eina fyrir börn og aðra fyrir ungt fólk á öllum aldri. Aðspurð hvenær bækurnar komi út svarar hún: „Um leið og ég er búin“, og svo skellihlær hún.
Sigga er líka að njóta sín í ömmuhlutverkinu en hún varð amma í fyrsta sinn á dögunum og segir það hlutverk vera æðislega skemmtilegt. En þó svo við teljum okkur velflest þekkja hana eru hér 10 hlutir sem þú vissir ekki um Siggu Kling.
Fullt nafn: Sigríður Klingenberg
Aldur: 56
Starf: Mitt starf er bara að vera Sigga Kling
Maki: Enginn
Börn: Þrjú og tvö stjúpbörn
Hvernig líta kósýfötin þín út?
Ég á engin kósýföt. Nema það er alveg hægt að segja að fötin sem ég er alltaf í séu kósý. Þetta eru í rauninni bara jogginggallar því þau eru úr teygjuefni, bara vel útfærðir og litríkir.
Hver var fyrsta atvinna þin?
Fiskvinnsla. Ég vann í fiski.
Hver er frægasta persóna sem þú hefur hitt?
Ég hef hitt margar frægar persónur skal ég segja þér. Ég var með Placido Domingo á Spáni einu sinni. Svo þekki ég Svíakonung nokkuð vel, hann Carl, var með honum heillengi í Rangá þar sem ég spáði fyrir honum og allt. Og svo var ég með Harry Belafonte í sumarbústað á Þingvöllum, en við vorum lengi að ræða það hvort við ættum að skella okkur í heita pottinn eða ekki.
Kaffi eða te?
Kaffi, alltaf kaffi.
Hvað er í töskunni þinni?
Elskan mín, ég á svo margar. Ég er alltaf með hina og þessa tösku. En það sem þú gætir fundið í þeim er fullt af varalitum, ilmvatn og olía sem mér líður svo vel af og svo auðvitað spilin mín. En ég gef oft þeim sem ég hitti eitt spil. Þetta eru svona spil með hvatningarorðum sem fólk tekur bara með sér heim. Ég er búin að gefa þúsundir svona spila.
Hvað er leiðinlegasta húsverkið þitt og af hverju?
Mér finnst öll húsverk leiðinleg. Ég er ekki fædd í þetta. Ég mundi frekar vilja vera húsdýr en húsmóðir.
Hvert er uppáhalds stjörnumerkið þitt og af hverju?
Það má ekki spyrja mig svona. Ég elska öll stjörnumerkin. En ef ég ætti mér uppáhalds þá væri það hrúturinn. Hann er æðislegur. Konur í þessu merki eru ótrúlega skemmtilegar og duglegar. Og svo er ég svo skotin í hrútakörlunum, þeir eru flottir.
Hvað er það sem þú borðar aldrei og munt aldrei borða?
Því er fljótsvarað. Siginn fiskur. Ojj… barasta.
Það er venjulegt þriðjudagskvöld. Hvað ertu með í kvöldmatinn?
Fisk úr fiskbúðinni. Ég bæti bara út í hann smá rjóma og set ost yfir og inn í ofn. Svo býð ég upp á hrísgrjón með. Þetta slær alltaf í gegn.
Hvenær og hvar ertu hamingjusömust?
Það skrítna er að ég er hamingjusömust i vinnunni og heima hjá mér. Mér líður stórkostlega þegar það er nóg að gera í vinnunni. En svo líður mér líka stórkostlega þegar ég er bara heima hjá mér í rólegheitum. Ég elska vinnuna og heimilið, enda naut og tvíburi.
Sigga Lund