Sumir vilja meina að lykilinn að löngu og farsælu hjónabandi sé gott kynlíf.
Þótt ekki allir séu því sammála þá verður víst að viðurkennast að kynlífið skiptir töluverðu máli í þessu samhengi.
Samkvæmt nýlegri rannsókn eru meiri líkur á hjónaskilnaði ef kynlífi er ábótavant. Rannsóknin, sem náði til 732 hjóna á aldrinum 57 til 85 ára, þótti sýna að þeir sem sögðust afar sjaldan eða aldrei stunda kynlíf voru óánægðari í sínu hjónabandi en þeir sem voru iðnari í rúminu.
Mýta að eldra fólk stundi ekki kynlíf
Já, og þótt sumir haldi annað þá stundar fólk svo sannarlega kynlíf þótt það sé komið á efri ár. Sú gamla mýta er heldur öðru fram er kolröng. Margir hreinlega blómstra kynferðislega á þessum seinni helmingi ævinnar.
Konur til dæmis, sem eru búnar að fara í gegnum tíðahvörf, eru flestar orðnar sáttar í eigin skinni og eru öruggari með sig. Þær eru líka margar áhyggjulausari og óhræddari við að sleppa fram af sér beislinu enda þurfa þær ekki lengur að hafa áhyggjur af getnaðarvörnum og barneignum.
Kynlíf ekki bara kynlíf
Fólk á þessum aldri gerir sér líka orðið grein fyrir því að kynlíf er ekki bara kynlíf, heldur svo miklu meira. Í þeirra huga þarf að vera bæði andleg og tilfinningaleg tenging svo kynlífið sé fullnægjandi. Kynlíf snýst að miklu leyti um viðhorf og því sem er í gangi í höfðinu á okkur. Því skiptir miklu máli að makinn örvi þig andlega jafnt sem líkamlega.
Kynlífið ekki alltaf fullkomið
Síðast en ekki síst þá gerir fullorðið þroskað fólk sér grein fyrir því að kynlífið er ekkert alltaf fullkomið. Því eru væntingarnar ekki í hæstu hæðum. En þótt allt sé ekki alltaf fullkomið þá er ekki þar með sagt að kynlífið geti ekki verið gott. Eins og með allt annað í lífinu þá gengur stundum vel og stundum ekki eins vel.
En mikilvægt er samt að njóta þess og slaka aðeins á kröfunum. Það þarf ekkert alltaf allt að ganga snurðulaust fyrir sig í rúminu.