Með hverjum er best og skemmtilegast að fá sér í glas? Sumir vilja meina að stjörnumerkin hafi þar áhrif og því skuli ekki hundsa þátt þeirra í þessu.
Stjörnufræðin og drykkjuvenjur
En hefurðu eitthvað hugsað út í það að kannski sé betra að fara út með einhverjum ákveðnum vini frekar en einhverjum öðrum, byggt á stjörnumerkjum þeirra?
Það er alltaf gaman að skoða stjörnumerkin og einkenni þeirra og alveg sama hvað manni finnst um stjörnufræðina þá er þetta skemmtileg pæling.
Hrútur
Það sem yfirleitt einkennir hrútinn er opin og vinaleg hegðun hans. Í veislum skoppar hann á milli fólks, blandar geði vinstri hægri og gætir þess að allir skemmti sér jafn vel og hann.
Ef hrúturinn stendur sig ekki í þessu geturðu verið viss um að hann helli í glasið hjá þér þar til þú ert komin/n á hans stig. Og ef þú ert í leiðu skapi þá er hrúturinn klárlega sá sem þú vilt fara með á happy-hour.
Naut
Þetta er eitt traustasta stjörnumerkið og þessir einstaklingar standa með þér í gegnum súrt og sætt. Þannig að ef þig vantar einhvern traustan með þér út á lífið þá ættirðu að hringja í vin þinn sem er í nautsmerkinu.
En farðu samt varlega því þegar nautið hefur fengið sér full mikið neðan í því kemur hið þrjóska eðli þess berlega í ljós. Ef því líkar ekki plan þitt fyrir kvöldið þarftu ekki að hafa neinar áhyggjur af því að nautið láti þig ekki vita af því. Þetta er einstaklingur sem lætur ekki undan hópþrýstingi, hvað þá þegar áfengi er komið í líkamann.
Gættu þess að ekki blossi upp deilur við nautið þegar þið fáið ykkur í glas því það gæti endað illa.
Tvíburi
Þetta merki er þekkt fyrir að hafa marga persónuleika. Og það getur verið erfitt að fá sér í glas með einhverjum sem skiptir stöðugt um skap.
Tvíburar þola ekki óákveðið fólk svo þú skalt hafa það alveg á hreinu hvað þið ætlið að gera og hvern þið ætlið að hitta. Og ekki hanga of lengi á sama staðnum því það leiðist tvíburanum. Þetta er vinurinn sem hverfur um leið og hann hefur fengið sér of mikið neðan í því.
Krabbi
Þetta er manneskjan sem á í erfiðleikum með tilfinningarnar og fer að væla þegar hlutirnir fara ekki eins og hún vill.
Krabbinn sýnir allan tilfinningaskalann, alveg eftir því hverjar aðstæðurnar eru. Og einmitt þess vegna er þetta kannski ekki besti drykkjufélaginn. Eina mínútuna eru þeir á toppi tilverunnar og allt svo æðislegt en þá næstu er allt ómögulegt og þeir hundpirraðir og fúlir.
Ljónið
Á meðan vínið flýtur og hellt er í glösin er ljónið með á nótunum. Ljónið talar mikið og liggur ekki á skoðunum sínum – alveg sama þótt það móðgi fólk með þeim.
Allir þekkja það hvað losnar um málbeinið hjá mörgum þegar þeir hafa fengið sér í tána og það á sérstaklega vel við ljónið. Eftir að tappinn hefur verið tekinn úr flöskunni stoppar ljónið ekki.
Meyja
Þetta eru fullkomnunarsinnar sem kjósa að fara einir á barinn til að slaka á eftir erfiðan dag. Og nákvæmlega þess vegna er meyjan ekki ákjósanlegur drykkjufélagi.
Meyjur eru miklir snyrtipinnar og sætta sig ekki við að fara á einhverjar búllur. Ef þú ert í stuði fyrir flott kvöld úti á lífinu þá er meyjan líklega þín manneskja.
Vogin
Þetta er líklega eitt besta merkið til að djamma með. Vogir eru glaðar og heppnar týpur sem vilja alltaf að allir skemmti sér jafn vel.
Vogin er skynsöm og heldur ró sinni og það er alltaf kostur þegar farið er út á lífið. Þetta er manneskjan sem sættir fólk og kemur í veg fyrir rifrildi.
Sporðdreki
Þegar sporðdrekinn hefur fengið sér nokkur glös opnast flóðgátt og hann opinberar skoðanir sínar. Og hann heldur ekki aftur af sér – sem getur bæði verið gott og slæmt.
Engu að síður eru þetta einstaklingar sem eru reiðubúnir að drekka með þér við hvaða kringumstæður sem er. Og það besta er að þeir fela tilfinningar sínar svo þú þarft ekki að hafa neinar áhyggjur af því að sporðdrekinn fari að væla ofan í glasið sitt.
Bogmaður
Farðu varlega þegar þú skemmtir þér með bogmanni því þetta eru að eðlisfari orðhvassir einstaklingar. Og þegar vín er komið í blóðið þá er betra að gæta þess hvað sagt er í návist þeirra.
Þegar líða fer á kvöldið og minnkar í flöskunni fara bogmennirnir þó að daðra meira svo ef þú ert á þeim buxunum gæti verið gott að hafa bogmanninn með sér út á lífið.
Steingeit
Það ætti kannski frekar að kalla steingeitina kamelljón því þetta er hinn fullkomni drykkjufélagi sem aðlagast hverjum þeim aðstæðum sem honum er hent inn í.
Þetta er áhyggjulausi vinurinn sem fer út á lífið og vill bara skemmta sér og þeim er alveg sama hvað, hver, hvenær eða hvar – þeir vilja bara hafa gaman.
Vatnsberi
Það borgar sig að fara varlega þegar farið er út á lífið með vatnsberanum. Þessir einstaklingar skipta fljótt skapi og ef þú pirrar þá óvart getur fjandinn verið laus.
Það getur því verið eftirminnilegt að fá sér í glas með vatnsberanum.
Fiskar
Það getur verið áhugavert að fá sér í glas með fiskinum því tilfinningar hans eru svo óútreiknanlegar. Farðu samt varlega því þetta síðasta glas gæti verið það sem ýtir fiskinum alveg yfir strikið.
Ef þér dettur skyndilega í hug að fara út á lífið er fiskurinn tilvalinn í eitthvað svona óvænt því þetta eru einstaklingar sem synda með straumnum en ekki móti honum.
Heimildir: elitedaily.com