Rannsóknir sýna fram á að viljir þú vera eins hraustur og heilbrigður og mögulegt er er ekki nauðsynlegt fyrir þig að mæta samviskusamlega í ræktina til að hlaupa á brettinu og lyfta lóðum.
Ekki ljúga vísindin
Þetta er víst engin vitleysa enda ljúga vísindin sjaldnast.
En sannað þykir að þeir sem lengst lifa fara aldrei í ræktina, lyfta ekki lóðum og hlaupa ekki maraþon. Þetta er það fólk sem býr á svo kölluðum Bláum svæðum í heiminum – en þetta fólk getur vænst þess að lifa lengst hér í heimi.
Þetta fólk býr í þannig umhverfi að þeim er nauðsynlegt að vera á hreyfingu, án þess þó að hugsa neitt sérstaklega út í það. Það eru heimilisstörfin, göngutúrar í búðina, garðvinna og annað slíkt sem telur.
Eðlileg hreyfing er málið
Þeir sem rannsakað hafa þessi Bláu svæði telja sig hafa komist að þeirri niðurstöðu að sú eðlilega hreyfing sem tilheyrir daglegu lífi sé áhrifamesta leiðin til að lengja lífið.
En þetta horfir þó líklega aðeins öðruvísi við hjá flestum okkar því margir sitja sem fastast í stól við tölvuskjáinn allan daginn. Og þótt það hljómi ósköp vel að hreyfa sig eðlilega og oft í gegnum daginn er raunveruleikinn sá að 90 prósent okkar sinna kyrrsetustarfi – en fyrir hundrað árum síðan var hlutfallið hins vegar aðeins 10 prósent.
Þetta má þó bæta
En það má þó auðveldlega bæta úr því og koma meiri hreyfingu inn í daglega lífið. Það er t.d. nauðsynlegt að standa annað slagið upp, labba aðeins um og teygja sig og jafnvel taka stutta göngu í hádeginu. Svo má taka stigana í staðinn fyrir lyftuna. Ganga með börnunum í skólann og fara fótgangandi í búðina þegar ekki eru gerð stór innkaup.
Síðan eru það heimilisstörfin – í staðinn fyrir að pirra sig á þeim er tilvalið að líta á þau sem aukna hreyfingu. Sem þau auðvitað eru! Allt þetta hjálpar til við að auka daglega hreyfingu.
Rannsóknir sýna fram á að það að ganga daglega hefur undraverð áhrif á bæði líkama og heila. Það er því vel þess virði að leggja það á sig að taka t.d. göngutúr eftir vinnu og fá um leið ferskt loft. Nýleg rannsókn sem framkvæmd var af Bandaríska Krabbameinsfélaginu sýndi fram á að sex klukkutíma ganga í hverri viku dragi úr líkum á því að látast af völdum hjarta- og æðasjúkdóma, öndunarfærasjúkdóma og úr krabbameini.
Rannsóknin leiddi einnig í ljós að jafnvel tveggja tíma ganga vikulega væri betri en ekkert og telur sú hreyfing því einnig og er talin geta dregið úr líkum á þessum sjúkdómum og um leið lengt lífið.
Ekki gleyma heilanum
Síðan má það auðvitað ekki gleymast hversu góð gangan er fyrir heila og huga. En dagleg ganga er talin draga úr líkum á elliglöpum um heil 40 prósent.
Ef þú átt erfitt með að ganga lengi í einu er sniðugt að taka styttri göngutúra og þá bara nokkra á dag.
Kjarni málsins er sá að líkami okkar er hannaður til þess að hreyfast og að vera hreyfður. Það þýðir þó ekki að við þurfum að fara í ræktina og hamast þar – alls ekki. Að hreyfa sig á eðlilegan máta daglega og gæta þess að ganga á hverjum degi er víst lykillinn að lengra og heilbrigðara lífi.