Það er svo gott og frískandi að fá sér frostpinna á sólríkum sumardögum. Ekki er nú verra ef maður getur fengið sér einn slíkan án þess að fá samviskubit.
Þessir eru hollir
Frostpinnar eru nefnilega alla jafna stútfullir af sykri og eru í raun óhollir. En ekki allir því þessir jarðaberjafrostpinnar eru eins hollir og þeir geta verið. Þú getur í raun borðað eins marga eins og þú vilt og notið þess með bros á vör.
Það sem þú þarft
12 meðalstór jarðarber
1 bolli hrein grísk jógúrt
frostpinnaform
Aðferð
Settu grísku jógúrtina í skál og hrærðu aðeins í til að mýkja hana.
Maukaðu svo jarðarberin í blandara eða í matvinnsluvél og settu í aðra skál.
Taktu nú formin og settu jarðarberin og jógúrtina í þau til skiptist til að frostpinninn verði lagskiptur.
Settu svo í frysti og eftir nokkrar klukkustundir geturðu notið þessarar dásemdar.
Uppskrift fengin af superhealthykids.com
Sigga Lund