Hver man ekki eftir gamla Hlemmi!
Hlemmur, sem var umtalaður lengi vel fyrir margt misjafnt. Það er eiginlega ekki hægt að segja annað en að þetta hafi verið frekar sóðalegur staður sem fáir vildu fara inn á og þá sérstaklega ekki á kvöldin.
Þegar ég var unglingur tók maður mjög oft strætó þarna og þá var þetta líka endastöð fyrir vagninn úr hverfinu mínu – og þarna þurfti maður því stundum að bíða. En ég held að Hlemmur hafi ætíð haft leiðinda orð á sér og maður dvaldi þar ekkert lengur en maður þurfti.
Allt annar Hlemmur í dag
En nú er tíðin önnur og Hlemmur hefur heldur betur fengið andlitslyftingu. Svo fína lyftingu að fólk flykkist þar inn á kvöldin. Á Hlemm er nefnilega komin þessi fína mathöll. Og það verður að viðurkennast að þetta konsept er alveg einstaklega vel heppnað og skemmtilegt.
Ég gerði mér ferð á Hlemm um daginn, nánar tiltekið á sunnudagskvöldi. Húsið er allt annað en það var. Nú tekur notalegt skvaldur, ilmandi matarlykt og ómur af klingjandi glösum á móti manni þegar inn er komið. Mathöll Hlemmur sækir innblástur sinn í evrópskar mathallir þar sem sameinast undir einu þaki tíu veitingastaðir og matarkaupmenn.
Þar sem tilefnið var að skoða mathöllina og fá sér bita röltum við tvo hringi um staðinn áður en við ákváðum hvað freistaði mest. Reyndar er kosturinn sá við mathöllina að það þurfa ekki allir að panta á sama staðnum og það má meira að segja kaupa sér mat á einum staðnum og vínglas á öðrum.
Góður borgari á Kröst
Sá staður sem freistaði okkar mest að þessu sinni var Kröst – en sá staður skilgreinir sig sem grill og vínbar. Við settumst á háa stóla við barinn þar sem maður sér allt sem fram fer á staðnum.
Valið af matseðlinum var frekar auðvelt fyrir mig þótt það væri vissulega margt sem ég hefði viljað prófa, en það bíður betri tíma. Þar sem ég er alveg afskaplega mikil hamborgarakona þá bókstaflega öskraði grillaði Kröstí-borgarinn á mig. Borgarinn sem er gerður úr feitu Ribeye-kjöti með Ísbúa (osti) og stökku salati er borinn fram með handskornum kartöfluflögum og Kröst sósu (sem er elduð í ég man ekki hvað marga tíma og er rosa góð).
Mér fannst það reyndar fyrst aðeins miður að fá ekki franskar með hamborgaranum en flögurnar smellpassa auðvitað með og taka ekkert af bragði borgarans. Borgarinn er afar djúsí og bragðgóður og kemst klárlega á listann hjá mér yfir bestu borgara bæjarins – allt frá brauðinu til gæða kjötsins. Og þótt ég hafi látið duga að drekka Coke Zero með borgaranum þá olli hann ekki vonbrigðum en þeir á Kröst segja kampavín smellpassa með borgaranum þeirra. Það er er eitthvað til að prófa næst!
Matseðillinn er ekki stór enda engin þörf á því, en hann samanstendur m.a. af steik, fiski, grænmeti og auðvitað hinum góða Kröstí hamborgara. Þá var þjónustan á staðnum alveg til fyrirmyndar og virkilega gaman að borða þarna.
Aðrir staðir í Mathöllinni eru Skál, Te og Kaffi, Borðið, Jómfrúin, Ísleifur heppni, Bánh Mí, Taquería La Poblana (sem var reyndar lokaður þetta sunnudagskvöld), Brauð & Co og Rabbar Barinn. En höllin er opin frá átta á morgnana til ellefu á kvöldin.
Við mælum klárlega með því að skella sér á Hlemm og njóta góðra veitinga og skemmtilegrar stemningar.
jona@kokteill.is