Segja má að Gunnar Þórðarson sé nokkurs konar þjóðargersemi. Hann er ótrúlegur listamaður og óhætt að segja að hann hafi toppað sjálfan sig með óperunni Ragnheiði í fyrra.
Gunnar sem varð sjötugur í byrjun janúar efnir til tvennra afmælistónleika í Eldborgarsal Hörpu þann 29. mars. Hann hóf feril sinn með Hljómum, var einn af þeim sem stofnuðu Trúbrot og hefur samið og útsett fjöldann allan af þekktustu lögum þjóðarinnar. Á tónleikunum má búast við því að heyra þessar gersemar en ljóst er að af nógu er að taka.
Með Gunnari á þessum tónleikum verður einvalalið söngvara og hljóðfæraleikara. En aðalsöngvarar og gestir eru m.a. Egill Ólafsson, Björgvin Halldórsson, Eyþór Ingi, Sigríður Thorlacius, Páll Óskar, Helga Möller, Jóhann Helgason, Bergþór Pálsson og Þóra Einarsdóttir. Auk þess verða strengjasveit, gospelkór og barnakór.
Það er greinilega mikið í lagt og má búast við glæsilegum tónleikum. Enda ekki annars að vænta frá slíkum listamanni.
Miðasala hefur gengið afar vel og er nú þegar orðið uppselt á mörg svæði á báða tónleikana.