Þótt vetur konungur sé enn að hrella okkur með endalausum lægðum og snjókomu og rigningu til skiptis þá má vel ylja sér við þá staðreynd að vorfötin fara að berast í verslanir.
Hamingja
Skilaboðin í vortískunni í ár, frá hönnuðum, eru hamingja. En það er mikil litagleði í gangi og við getum svo sannarlega klætt okkur líflega.
Það er því mikið tilhlökkunarefni að geta bráðum lagt snjóbomsunum og þykku úlpunni og farið í rauða skó og köflóttan jakka.
Pastellitir
Litirnir í vor og sumar eru bæði mildir og líflegir og allir ættu að geta fundið lit við sitt hæfi. Pastellitir eru áberandi og eru það ljósbleikir, ljósbláir, ljósgulir og ljósgrænir tónar – en nýjasta viðbótin er síðan lillablátt. En lillablár hefur ekki sést í langan tíma og við tökum honum fagnandi.
Sterkir litir
Og svo eru það sterku litirnir og er tómatrauði liturinn mjög áberandi. Mjög smart er að vera í öllu rauðu frá toppi til táar. Rauðir skór, rauðar buxnadragtir og rauðir kjólar verða eldheitir í sumar. Aðrir sterkir litir fyrir vorið eru smaragðsgrænn, kóbaltblár og skærgulur og einnig má sjá appelsínugult. Eins og með rauða litinn þá er það algjörlega málið að klæðast einum og sama litnum frá toppi til táar.
Köflótt
Mynstur eru einnig áberandi í vortískunni og er köflótt með sterka endurkomu. Sjá má köflótta jakka, köflóttar buxur, dragtir, pils, kjóla og köflótta fylgihluti. Það má líka alveg blanda ólíkum köflóttum litum saman – allt er leyfilegt.
Blóm
Alls kyns blómamynstur eru ríkjandi í sumartískunni og kjólar með blómamunstri eru mjög heitir. Nýjasta blómamunstrið í ár eru smá blóm en stóru blómamunstrin eru líka sjóðandi heit.
Doppur
Síðast en ekki síst eru það doppur – en þær skjóta upp kollinum reglulega enda klassískar og fallegar. Mikið er um doppótta kjóla en einnig pils, buxur og blússur.