Hvenær er maður tilbúinn til að fara á stefnumót eftir skilnað?
Ekkert einfalt svar er til við því enda er þetta eitthvað sem er afar einstaklingsbundið. En eitt er þó nokkuð áreiðanlegt og það er að flestir finna ef þeir eru alls ekki tilbúnir til þess og ættu þeir einstaklingar að fara eftir því og geyma stefnumót á meðan sú tilfinning varir.
Að taka af skarið
En þegar hugmyndin er farin að hljóma vel þá er alveg þess virði að taka af skarið og sjá hvort þú sért tilbúin/n. Ef það reynist svo vera erfiðara og verra en þú hélst þá er bara að taka skref tilbaka og geyma þetta aðeins lengur.
Þegar þú hins vegar ákveður að skella þér í stefnumótagírinn er ekkert ólíklegt að þú sért óörugg/ur og jafnvel hrædd/ur og er því skynsamlegt að fara varlega og taka eitt hænuskref í einu.
Hér eru nokkur atriði sem gætu hjálpað og ágætt er að hafa á bak við eyrað
1. Hvað viltu?
Vertu viss um hvað þú vilt. Ertu að leita að lífsförunaut? Eða kynnum sem gætu jafnvel leitt til einhvers? Eða kannski skammtímaskemmtun? Gerðu það upp við þig áður en þú ferð af stað hvað það er sem þú sækist eftir því það auðveldar hlutina.
2. Enga neikvæðni
Losaðu þig við alla neikvæðni. Ekki ákveða að allir karlmenn séu fífl eða allar konur leiðinlegar. Eða að allir þeir bestu séu fráteknir. Ef þú hugsar á neikvæðum nótum takmarkarðu möguleika þína á að finna það sem þú leitar eftir.
3. Nógu góð/ur
Alls ekki hugsa neikvætt um sjálfa/n þig heldur. Þú ert alveg nógu góð/ur og þess verðug/ur að finna ástina.
4. Ævintýri
Það er líka mikilvægt að hugsa um stefnumót á jákvæðan hátt. Ekki tengja neikvæð orð, eins og hræðilegt, ömurlegt, neyðarlegt og glatað við stefnumót. Hugsaðu frekar um þetta sem ævintýri og tækifæri til að hafa gaman.
5. Börnin
Ef þú átt börn ekki láta þau stoppa þig. Láttu þau vita að þú sért að fara á stefnumót og ekki hafa samviskubit yfir því eða nota börnin sem afsökun fyrir því að sleppa stefnumóti. En ekki heldur koma með þann sem þú hittir heim fyrr en sambandið er orðið alvarlegt.
6. Stefnumótasíður
Prófaðu að nota netið þótt þér finnist það óþægilegt. Ekki hugsa um stefnumótasíður á netinu sem eitthvað fyrir aula eða vitleysinga. Það er fullt af samböndum þarna úti sem hafa orðið til á netinu. En auðvitað þarf að gæta fyllstu varkárni. Að hittast á kaffihúsi yfir kaffibolla er t.d. ágætis byrjun.
7. Gefðu þessu tíma
Ekki láta það eyðileggja framtíðina þótt hlutirnir gangi ekki strax upp. Ef fyrsta stefnumótið gengur ekki vel og þú sérð að þetta muni ekki ganga þá er ekki þar með sagt að þú getir ekki haldið áfram að fara á stefnumót og hitta nýja aðila. Gefðu þessu tíma og ekki gera of miklar væntingar. Góðir hlutir gerast hægt.