Það eru nefnilega ekki bara konur sem fara á breytingaskeið – svo það sé alveg á hreinu.
En hvernig lýsir breytingaskeið karla sér – og hvernig geta karlmenn vitað hvort þeir séu að ganga í gegnum þetta skeið?
Ekki það sama og grái fiðringurinn
Töluvert hefur verið rætt um breytingaskeið kvenna en öllu minna um breytingaskeið karla. En það er ekki þar með sagt að karlar fari ekki á sitt breytingaskeið.
Sumir halda því reyndar fram að grái fiðringingurinn, svokallaði, hjá karlmönnum sé það sama og tíðahvörf hjá konum. Svo er þó ekki. Engu að síður er tenging þarna á milli.
Ólíkt breytingaskeiði kvenna
Talið er að karlar gangi líka í gegnum breytingaskeið, en á annan hátt en konur. Allar konur, hver og ein einasta, ganga í gegnum tíðahvörf en ekki ganga allir karlmenn í gegnum breytingaskeið. Sannað þykir að sumir karlmenn finni aldrei fyrir neinu sem talið er tilheyra breytingaskeiði. Auk þess er þetta tímabil hjá þeim töluvert ólíkt breytingaskeiði kvenna.
Hjá konum skellur breytingaskeiðið yfirleitt skyndilega á og með þunga, en gengur síðan yfir á ákveðnum tíma. Mörgum konum finnst þetta tímabil reyndar vera allt of langt. Enda reynist það mörgum þeirra erfitt. En flestir vita hins vegar ekki að breytingaskeið karla getur varað í tugi ára. Já tugi ára!
Hormónabúskapurinn breytist
Líkt og með breytingaskeið kvenna þá snýst breytingaskeið karla líka um hormónana. Karlar finna fyrir því þegar hormónabúskapur líkamans breytist. Með hærri aldri er algengt að testósterón minnki í líkama karlmanna. Testósterón eru hormónarnir sem gera karlmenn að karlmönnum.
Eftir þrítugt minnkar magn testósteróns, hjá meðalmanninum, um eitt prósent á ári. Þegar karlar eru um sjötugt er ekki ólíklegt að meðalmaðurinn sé með um helming af því magni sem hann áður hafði. En magn testósteróns hjá körlum getur þó verið afar breytilegt og má nefna sem dæmi að áttræður maður getur þess vegna verið með meira magn í líkamanum en þrítugur maður. Sem er einmitt ástæðan fyrir því að ekki ganga allir karlmenn í gegnum breytingaskeið.
Getur valdið tilfinningalegum og sálrænum breytingum
Þessi niðursveifla á testósterón búskapnum getur valdið líkamlegum, tilfinningalegum og sálrænum breytingum. Rannsóknir sýna að margir karlmenn átta sig þó ekki á því að testósterón magn líkamans hafi minnkað fyrr en þeir fá niðurstöður þess efnis frá lækni.
Ef þú heldur að þú sért að ganga í gegnum breytingaskeið og sért með lágt hlutfall testósteróns í líkamanum er sjálfsagt að láta skoða það. Þverrandi magn þess getur haft mikil áhrif á skapið og leitt til þunglyndis.
Kannastu við þessi einkenni?
Ef þú ert kominn yfir fertugt, fimmtugt eða sextugt og ert:
Orkulaus
Sífellt þreyttur
Skapillur
Sefur illa
Hefur minni kynhvöt
Átt við risvandamál að stríða
Og sérð að brjóst þín hafa stækkað
Þá ertu að öllum líkindum að ganga í gegnum breytingaskeið og þverrandi testósterón búskap. Og hafðu í huga að það er ekkert óeðlilegt við það. Ef þessi einkenni íþyngja þér er sjálfsagt að leita læknis.