Hver hefur ekki heyrt einhverjum óskað til hamingju með að hafa grennst?
En hafið þið einhvern tímann óskað einhverjum til hamingju með að hafa fitnað? Bara svona smá pæling!
Það er alltaf talað þannig eins og það hljóti að fylgja því mikil hamingja að grennast og vissulega getur það verið þannig sérstaklega ef viðkomandi hefur stefnt heilsu sinni í hættu með ofþyngd. En það eru ekki allir í þeim sporum því sumir þurfa virkilega að berjast við að halda þyngd sinni ekki of lítilli. Svona getum við verið ólík.
Hamingjusamari feit en mjó
Í fyrra steig fimm barna móðir í Bandaríkjunum fram og sagðist vera hamingjusamari feit en mjó. Auk þess birti hún af sér myndir fyrir og eftir. Á fyrir myndinni var hún tágrönn og einhverjir myndu segja að hún hefði verið algjör kroppur. En á myndinni eftir á hafði hún hins vegar bætt á sig allnokkrum kílóum og var feitari. Þetta var svona öfugt „fyrir og eftir“ en maður á að venjast.
Þessi frásögn hennar vakti mikla athygli og er skemmst frá því að segja að orð hennar urðu mjög umdeild. Sumir fundu sig knúna til þess að rífa konuna niður og gera lítið úr henni. Ljótar og leiðinlegar athugasemdir voru látnar falla.
Gerði hana enn uppteknari af líkama sínum og hún var aldrei ánægð
En hvað gerðist hjá þessari konu?
Jú hún fór að borða og sofa. Hún bæði borðaði meira og svaf meira. Þegar hún var sem grennst borðaði hún ekki nema 1000 hitaeiningar á dag og svaf að meðaltali 3 tíma á sólarhring. Þá segist hún hafa hlaupið 55 kílómetra á viku og talið hverja eina og einustu hitaeiningu sem hún setti ofan í sig. Þessu fylgdi líkamleg röskun eins og sú að hún hafði ekki blæðingar. Og þótt garnirnar gauluðu hátt og stöðugt þá fékk hún sér ekki að borða.
Að vera tágrönn og rosa kroppur gerði þessa konu ekki hamingjusama. Hún viðurkennir þó að vissulega hafi verið auðveldara að kaupa sér föt þegar hún var í stærð fjögur, enda séu föt aðallega hönnuð fyrir konur í þeirri stærð. Þess utan hafi hún vakið athygli fyrir vöxt sinn og fólk yfirleitt snúið sér við og horft á eftir henni þegar hún gekk hjá – og karlmenn stanslaust farið á fjörurnar við hana. En það eina sem þetta gerði fyrir hana var að gera hana enn uppteknari af líkama sínum og var hvert einasta smáatriði stöðugt undir smásjánni hjá henni. Og hún var aldrei ánægð með sig.
Í dag segist hún vera hamingjusöm. Feit og hamingjusöm. Hún segir enga tryggingu fyrir því að hamingjan fylgi grönnum líkama – ekkert frekar en að feitari líkama fylgi óhamingja.
Ekki óalgengt að konur svelti sig og æli
Fyrir skemmstu horfði ég á erlendan spjallþátt þar sem gestur þáttarins, sem var kona, hafði grennst töluvert. Það fyrsta sem þáttastjórnandinn spurði konuna var: „Rosalega hefurðu grennst. Til hamingju. Hvernig fórstu svo að þessu?“ Svar konunnar var svo einfalt en samt eitthvað svo ömurlegt: „Með því að vera ALLTAF svöng“. Og svo hlógu þær báðar, gesturinn og þáttastjórnandinn.
En það er víst ekkert nýtt eða óvenjulegt að konur hreinlega svelti sig til að halda þyngdinni í lágmarki og til þess að grennast. Ung kona, sem býr á Manhattan í New York, sagði mér t.d. að flestar konur þar borði bara almennt ekki. En ef þær hins vegar borði þá kasti þær matnum upp á eftir. Og þetta eru konur á öllum aldri, ekki bara þær yngri.
Ég held ég verði bara líka feit… og hamingjusöm eins og fimm barna móðirin. Því það er nokkuð ljóst að matargatið ég get ekki hugsað mér að vera án góðs matar – hvað þá ánægjunnar af því að sitja með góðum vinum að snæðingi. Því bragðgóður og fallegur matur og sú athöfn að setjast niður og borða hann veitir mér hamingju. En þetta er auðvitað bara það sem mér finnst – og við þurfum ekki öll að vera eins.
jona@kokteill.is